Fastir pennar

Hringar breiða úr sér

Þorvaldur Gylfason skrifar
Frjáls markaðsbúskapur er til margra hluta nytsamlegur eins og reynslan sýnir. Markaðsfrelsi sprettur þó ekki af sjálfu sér heldur þarf almannavaldið að vaka yfir því ef vel á að vera. Til þess höfum við samkeppniseftirlit sem er ætlað að tryggja að markaðurinn sé þarfur þjónn almennings frekar en harður húsbóndi. Bandaríkin, ESB og einstök Evrópulönd hvert fyrir sig hafa komið sér upp skilvirku samkeppniseftirliti sem skirrist ekki við að skipta stórfyrirtækjum og hringum upp í smærri og hagfelldari einingar til að halda fákeppni og okri í skefjum til hagsbóta fyrir almenning. Nýrri samkeppnislöggjöf meðfram inngöngu Íslands á Evrópska efnahagssvæðið (EES) 1994 var með þessu móti ætlað að örva samkeppni og efla almannahag.

Bankarnir sem hringur

Íslendingar standa þó enn langt að baki grannþjóðunum í samkeppnismálum. Landlæg fákeppni og meðfylgjandi okur á mörgum sviðum vitna um vandann. Um alla Ameríku og Evrópu, jafnvel í nyrztu byggðum Noregs, þurfa innlendir bankar að keppa við erlenda banka. Svo er ekki á Íslandi. Þetta er höfuðskýringin á háum vöxtum hér heima og miklum vaxtamun, þ.e. miklum mun útlánsvaxta og innlánsvaxta. Þetta skýrir einnig að hluta hvers vegna bönkum helzt uppi að varpa allri áhættu vegna verðbólgu yfir á lántakendur í gegnum verðtryggingu frekar en að deila áhættunni með lántakendum. Og þetta skýrir einnig hvers vegna sumir íslenzkir eftirlaunaþegar sitja ennþá uppi með eftirstöðvar af námslánum æskuáranna og hvers vegna margt ungt fólk hefur nú ekki lengur efni á að kaupa sér íbúð.

Eignarhald á bönkum á Íslandi jafngildir í reyndinni leyfi til að prenta peninga með því að rýja valda viðskiptavini inn að skinni og þyrma öðrum með afskriftum. Valdið til að gera upp á milli viðskiptavina er vandmeðfarið. Þessu valdi vildu stjórnmálamenn ekki sleppa þegar einkavæðing bankanna varð ekki lengur umflúin. Sænski bankinn Skandinaviska Enskilda Banken var kominn á fremsta hlunn með að kaupa ráðandi hlut (þriðjung) í Landsbankanum 1998 en af því varð ekki þar eð brýnt var talið að „Landsbankinn kæmist í hendur manna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði a.m.k. talsamband við“, eins og Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins lýsti svo eftirminnilega í bókinni Forsætisráðherrar Íslands: Ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar í 100 ár (2004, bls. 467). Frá hruni hefur fákeppni ágerzt á bankamarkaði þar eð flestir sparisjóðirnir eru horfnir.

Olíufélögin

Líku máli gegnir um olíuviðskipti sem örfá fyrirtæki hafa skipt á milli sín frá fyrstu tíð án þess að erlendum keppinautum væri hleypt inn á markaðinn. Pólitíkin var lengi vel allsráðandi í olíubransanum ekki síður en í bönkunum og víðar. Sjálfstæðismenn fóru heldur út að ýta en að kaupa bensín af Esso, olíufélagi Framsóknar. Það félag varð uppvíst um lögbrot 1950-1960 sem leiddu til dóma yfir nokkrum virðingarmönnum þess. Þrjú olíufélög voru síðar fundin sek um ólöglegt samráð 1993-2001.

Það sem hafði breytzt var að aðild Íslands að EES leyfði ekki lengur gamla samráðið, en olíufélögin héldu samt uppteknum hætti, þ.e. brutu lög, allan þann tíma sem þau störfuðu á frjálsum markaði frá 1993 þar til almannavaldið greip í taumana. Ákærum á hendur forstjórum olíufélaganna var vísað frá dómi, en félögin voru dæmd til að greiða háar sektir sem er eins og að sekta hringveginn fyrir of hraðan akstur. Hæstiréttur staðfesti sök olíufélaganna endanlega með dómi 2016 eftir 15 ára þref. Dómsskjöl vitna um að samráð olíufélaganna olli fólkinu í landinu miklu tjóni. Nú fyrst hillir undir erlenda samkeppni við innlenda olíuverzlun þegar Costco kemur til Íslands innan skamms.

Húsnæðismarkaðurinn

Fákeppni á byggingamarkaði virðist hafa ágerzt m.a. með því að stórir verktakar hafa rutt minni verktökum til hliðar líkt og margur kaupmaðurinn á horninu hefur þurft að víkja fyrir stórmörkuðum. Stórir verktakar geta leyft sér að byggja íbúðir fyrir t.d. 20 mkr. og selja þær á 60 mkr. eftir því lögmáli að fákeppni, þ.e. skortur á samkeppni, gerir þeim kleift að knýja söluverð íbúða upp úr eðlilegu samhengi við byggingarkostnað og keyra hagnað sinn þannig upp úr öllu valdi líkt og bankarnir gerðu fyrir hrun og gera enn. Þetta hefur ekki gerzt á matvörumarkaði; þar hafa stórverzlanir þvert á móti stuðlað að lækkun vöruverðs.

Við bætist fákeppni á leigumarkaði sem er nýtt fyrirbæri eins og nýyrðið „leigurisi“ vitnar um; orðið hefur ekki enn verið skráð í Orðabók Háskólans. Fyrst leystu bankarnir til sín þrjár húseignir á dag að jafnaði í mörg ár eftir hrun og gerðust þannig smám saman eigendur mikils fjölda íbúða sem þeir seldu síðan fasteignafyrirtækjum með magnafslætti. Þarna liggur hluti skýringarinnar á því að nú eru leigurisar orðnir svo mikils ráðandi á leigumarkaði að fjöldi fólks hefur hvorki efni á að kaupa sér íbúð né greiða uppsetta húsaleigu. Samkeppniseftirlitið segist vera að athuga málið.

Lausaganga ferðafólks leggst á sveif með leigurisunum með því að þrýsta húsaleigu upp í hæstu hæðir.






×