Innlent

Veðurfræðingar boða vor: Hiti gæti farið í 17 stig eftir helgi

Birgir Olgeirsson skrifar
Hitaspá Veðurstofu Íslands fyrir þriðjudag.
Hitaspá Veðurstofu Íslands fyrir þriðjudag. Veðurstofa Íslands

Það hlýnar heldur í veðri eftir helgi að sögn Þorsteins V. Jónsson, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Gengur hann svo langt að spá því að það muni hreinlega vora á mánudag, eins og spárnar líta út í dag og gæti farið allt upp í 16 - 17 stiga hita á norðanverðu landinu.

„Það verður heldur vetrarlegt veður á morgun og á föstudag en svo hlýnar á sunnudeginum og útlit fyrir nokkuð hlýtt og gott veður eftir helgi,“ segir Þorsteinn. Hann segir hlýrra loft leika um landið eftir helgi og að kalda loftið sé á undanhaldi eins og spárnar líta út í dag, og mun þetta ástand vara í nokkra daga miðað við þær.

„Og við vonum að þetta muni vara sem lengst,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að það muni verða fremur hlýtt á Norðurlandi eftir helgi, það er að segja í Eyjafirði og nágrenni hans og þá er ekki útilokað að hlýtt gæti orðið á Vestfjörðum.

Þessu mun þó fylgja strekkings suðaustanátt á Suður- og Austurlandi, sem þýðir að veður verður mun skaplegra á þeim stöðum sem eru hlémegin við þá átt, það er að segja Norður- og Vesturland.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun: Sunnan 8-15 og rigning en hægari og þurrt á N- og A-landi til kvölds, síðan væta með köflum þar. Sums staðar slydda eða snjómugga til fjalla S- og V-til um kvöldið og kólnar í veðri.

Á föstudag: Suðaustan 13-18 m/s og úrkomulítið N-land, annars rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla. Hægari vindur á S- og V-landi um kvöldið. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á laugardag: Suðaustan 8-15 m/s, hvassast á annesjum. Rigning SA-lands, annars skúrir eða slydduél, en þurrt að mestu fyrir norðan. Hiti 3 til 10 stig, mildast NA-lands.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag: Stífar austlægar áttir, væta með köflum og hægt hlýnandi veður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.