Viðskipti innlent

Fyrirséð að fjárhagstjón verður umtalsvert

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Verksmiðja United Silicon í Helguvík
Verksmiðja United Silicon í Helguvík Vísir/Eyþór
Fyrirséð er að fjárhagslegt tap vegna stöðvunar á starfsemi United Silicon í Helguvík verður mikið, segir Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá fyrirtækinu. Alls óvíst er hvenær framleiðsla getur hafist að nýju.

„Við töpum umtalsverðum fjárhæðum á hverjum einasta degi. En það er ekki okkar fókus heldur að finna lausn á þessum vanda,“ segir Kristleifur, sem vill þó ekki gefa upp hvert fjárhagstjónið er talið verða í krónum talið.

Störf gætu verið í hættu

Hátt í sjötíu starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu og gætu störf þeirra verið í hættu. Kristleifur segir hins vegar of snemmt að fullyrða um slíkt. „Það eru öll störf í hættu ef verksmiðjan fer ekki aftur í gang en engin störf í hættu ef við komumst aftur í gang. En þá verður bara fjölgun á starfsfólki,“ segir hann.

Umhverfisstofnun ákvað með bréfi sínu í gær að stöðva starfsemi verksmiðjunnar. Hún verður ekki endurræst að nýju fyrr en hægt verður að skýra lyktarmengun sem íbúar í nágrenni verksmiðjunnar hafa ítrekað kvartað undan og ráðist hefur verið í úrbætur vegna þessa.

Allra leiða leitað

Fyrirtækið gerði ekki athugasemdir við ákvörðunina en hefur leitað til ráðgjafafyrirtækis í Noregi til þess að reyna að leysa vandamál verksmiðjunnar.

„Við erum að vinna í okkar málum með öllum þeim sérfræðingum sem fáanlegir eru. Við verðum með alla þessa sérfræðinga plús Umhverfisstofnun þegar við störtum upp og við stefnum á að koma með lausnir sem lágmarka þessa lykt og ætlum að koma þessu í almennilegt ástand.“

Þá segist hann aðspurður ekki vita hvenær hægt verði að gangsetja ljósbogaofn verksmiðjunnar, en samkvæmt ákvörðun Umhverfisstofnunar þarf United Silicon sérstakt leyfi til gangsetningarinnar, ásamt því sem það þarf að upplýsa íbúa Reykjanesbæjar um fyrirhugaða uppkeyrslu með fyrirvara. Kristmundur segist þó geta fullyrt að ofninn verði ekki ræstur í þessari viku.


Tengdar fréttir

Starfsemi United Silicon stöðvuð

Umhverfisstofnun ákvað með bréfi í gær að stöðva starfsemi Sameinaðs Sílikons. Rekstraraðila verður ekki heimilt að gangsetja ljósbogaofn verksmiðjunnar nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar til frekari greiningar á lyktarmengun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×