Fótbolti

Börsungar slátruðu botnliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi skoraði tvö mörk áður en hann var tekinn af velli.
Messi skoraði tvö mörk áður en hann var tekinn af velli. vísir/getty
Barcelona náði þriggja stiga forskoti á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar með risasigri á Osasuna, 7-1, í kvöld.

Barcelona vann dramatískan sigur á Real Madrid á sunnudaginn og fylgdi honum eftir með því að slátra botnliði Osasuna sem er svo gott sem fallið.

Lionel Messi kom Börsungum á bragðið með frábæru marki á 12. mínútu og eftir hálftíma skoraði Andre Gomes annað mark heimamanna.

Staðan var 2-0 í hálfleik en Roberto Torres minnkaði muninn með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 48. mínútu.

Gomes kom Barcelona í 3-1 á 56. mínútu og fimm mínútum síðar skoraði Messi sitt annað mark og fjórða mark Barcelona. Hann fór svo af velli skömmu síðar.

Paco Alcácer skoraði fimmta markið á 64. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Javier Mascherano úr vítaspyrnu. Þetta var fyrsta mark Argentínumannsins fyrir Barcelona

Paco átti svo lokaorðið þegar hann skoraði sitt annað mark á 86. mínútu. Lokatölur 7-1, Barcelona í vil.

Real Madrid getur jafnað Barcelona að stigum með sigri á Deportivo La Coruna síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×