Innlent

Sóttu heljarinnar plastskrímsli á táknrænan hátt

Sæunn Gísladóttir skrifar
Átkið Hreinsum Ísland stendur yfir til 7. maí.
Átkið Hreinsum Ísland stendur yfir til 7. maí. vísir/gva
Átak Landverndar Hreinsum Ísland fór af stað í vikunni á degi umhverfisins. Átakinu var hleypt af stokkunum við ströndina við Sjálandsskóla í Garðabæ en nemendur Sjálandsskóla hafa vakið athygli á plastmengun, þar með talinni plastmengun í sjó, og hreinsa reglulega strandlengjur í nágrenni skólans.

Á viðburðinum fóru nemendur út á sjó á kajökum og drógu plast­skrímsli úr sjónum að landi. Átakið stendur til 7. maí og mun Landvernd vekja athygli á þeim hættum sem fylgja plastmengun í hafi. Vonast er til þess að sem flestir leggi hönd á plóg og taki þátt í að minnka plastmengun.

Hægt er að skipuleggja sína eigin strandhreinsun og veitir Landvernd góð ráð á vefsíðunni hreinsumisland.is sem var opnuð við þetta tækifæri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×