Innlent

Eitrun hamlar barnaferð

Benedikt Bóas skrifar
Allur kræklingur sem ræktaður er til sölu er mældur og vottaður öruggur til neyslu áður en hann fer í búðir.
Allur kræklingur sem ræktaður er til sölu er mældur og vottaður öruggur til neyslu áður en hann fer í búðir.
Fyrirhugaðri kræklingaferð Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna í Hvalfjörð á laugardag hefur verið aflýst þar sem þörungaeitrun hefur mælst í kræklingnum í firðinum að undanförnu. Ferðin hefur verið afar vinsæl undanfarin ár þar sem almenningi gefst kostur á að fræðast um kræklinginn, tínslu hans og nýtingu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum.

Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun vakta þörungaeitrun og er nú varað við neyslu á skelfiski úr Hvalfirði þar sem svonefnd DSP-eiturefni eru yfir viðmiðunarmörkum.

Almenna þumalputtareglan þegar farið er í kræklingafjöru er að óhætt sé að tína kræklinginn í þeim mánuðum sem hafa „r“ í nafninu. Þetta er vegna þess að þörungablómi og eiturefni honum fylgjandi aukast yfir sumarmánuðina þegar hitastig sjávar hækkar. Þörungaeitrið hefur hins vegar verið viðvarandi í Hvalfirðinum í vetur sem er afar óvenjulegt.

Rétt er að undirstrika að eiturefni hafa til dæmis ekki mælst í kræklingi í Breiðafirði síðustu mánuði. Jafnframt er allur kræklingur sem ræktaður er til sölu alltaf mældur og vottaður öruggur til neyslu áður en hann fer í verslanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×