Innlent

Starfsemi Kvikmyndaskólans bjargað fyrir horn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands.
Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands. Vísir/GVA
„Fréttir af andláti eru stórlega ýktar. Það er ekki alveg komið að því,“ segir Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, í samtali við Vísi.

Í dag var haldinn fundur þar sem stjórn skólans ásamt deildarstjórum fór yfir stöðu fyrir nemendur. Var nemendum greint frá því að ekki væri ljóst hvort skólastarf myndi halda áfram óbreytt.

Dregist hafði að borga einhverjum kennurum við skólann laun og fyrirgreiðsla sem gert var ráð fyrir til að fjármagna skólastarfsins út árið hafði ekki verið afgreidd. Þau mál hafa nú verið leyst að sögn rektors og stjórnarformanns.

„Það sem ég get sagt þér er að það hafa verið erfiðleikar að undanförnu en mér sýnist að hjálp hafi borist á ögurstundu og að við séum ekki að fara af sviðinu. Það var bara eitthvað sem gerðist í dag,“ segir Hilmar Oddsson.

Hann segir að nú þurfi að koma starfi skólans aftur í eðlilegt horf og að fundurinn í dag hafi verið á sérlega viðkvæmum tíma.

„Hann var á erfiðum tímapunkti, því hlutirnir gerðust svo hratt. Þetta var redding á elleftu stundu því björgunin kom seint, en hún er engu að síður staðreynd.“

Þannig að nemendur kvikmyndaskólans geta andað léttar?

„Já, kennsla heldur áfram með eðlilegum hætti.“

Böðvar Bjarki Pétursson, stjórnarformaður Kvikmyndaskólans.Vísir/Anton Brink
Böðvar Bjarki Pétursson, stjórnarformaður Kvikmyndaskólans, tekur í sama streng.

„Ég get staðfest að það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þessari önn eða skólastarfinu yfirleitt,“ segir Böðvar Bjarki í samtali við Vísi.

„Það var þannig að það dróst að greiða laun hjá hluta kennara og þegar það dregst að greiða laun þá er ástæða til að skýra það út og í framhaldinu, akkúrat á sama tíma, þá var gengið frá fjármögnun og það er búið að ganga frá fjármögnun bæði annarinnar og ársins.“

Hann segir að vandræðin skýrist af ójöfnu tekjuflæði.

„Tekjuflæði í skólanum er ójafnt það er að segja að 80% af tekjunum koma seinni hluta ársins og það þarf ákveðna fyrirgreiðslu til að jafna út tekjurnar. Það dróst að fá afgreidda ákveðna fyrirgreiðslu en svo er búið að leysa það. Þannig að áhyggjufullir nemendur þurfa ekki að vera áhyggjufullir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×