Menning

Flokkar verkin eftir merkingu og efniviði

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þegar fólk kemur á sýninguna fær það lítil hefti og þar getur það fræðst frekar,“ lofar Hildigunnur. Fréttablaðið/Eyþór
"Þegar fólk kemur á sýninguna fær það lítil hefti og þar getur það fræðst frekar,“ lofar Hildigunnur. Fréttablaðið/Eyþór
Ég leik mér að því að flokka verkin í a, b, c, d, e og f, eftir merkingu þeirra og efniviði. Þegar fólk kemur á sýninguna fær það lítil hefti og þar getur það fræðst frekar,“ segir Hildigunnur Birgisdóttir myndlistarmaður sem opnar sýningu í i8 Galleríi í dag milli klukkan 17 og 19.

Hildigunnur Birgisdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og hefur sýnt í Listasafni Reykjavíkur, Kling & Bang, Nýlistasafninu og Annaellegallery í Stokkhólmi. Hún hefur skapað sér sérstöðu með smágerðum skúlptúrum, leikgleði og húmor sem þó vekur athygli á alvarlegri málum.





Veggfóðrið heitir Óþægilegar staðreyndir enda felur letrið í sér vandræðaleg leyndarmál um listakonuna Hildigunni. vísir/Eyþór
Í i8 eru öll verkin upphengd og yfir allan salinn er veggfóður í gulum, rauðum, bláum og grænum litum, það er listaverk eftir Hildigunni og heitir Óþægilegar staðreyndir. Ástæðan er sú að á því eru staðreyndir um hana sjálfa, birtar í óþekktu leturkerfi sem þó er byggt á latneska stafrófinu.

„Fólk þarf að leggja svolítið á sig ef það ætlar að komast að leyndarmálunum. En í raun vil ég ekkert að fólk viti þau, því þau eru bara vandræðaleg,“ útskýrir hún brosandi.

Bendir líka grallaraleg á að sýningin sjáist varla fyrir sýningunni og það má til sanns vegar færa. Það ber til dæmis ekki mikið á agnarsmáum bronshillum inn á milli veggfóðurskreytinga. Þær hillur kveðst Hildigunnur hafa mótað með eigin fingrum.

„Fyrstu hilluna gerði ég ekki í neinum sérstökum tilgangi, hún var bara fyrir eitthvað sem ég vissi ekki hvað yrði. Í öðru tilfelli bjó ég til hillu fyrir skrúfur. Mér fannst það huggulega gert af mér – ég held að skrúfur hafi sjaldan fengið slíka athygli. Bara – tími til kominn!“





Sumar hillur þjóna vissum tilgangi, aðrar óræðum.
Í einum flokknum eru postulínsverk. „Mér finnst voða gaman að prufa nýjar aðferðir en ég geri það oft bara einu sinni,“ segir listakonan og heldur áfram:

„Þessi verk kölluðu á postulín því þau eru afsteypur af fjöldaframleiddum umbúðum, mér fannst við hæfi að setja þau í viðkvæmt og fallegt efni því umbúðir lenda jafnan í ruslinu. Serían fjallar um hringrás okkar, neysluna og umhverfið og verkin heita isk, þau draga nafn sitt alltaf af þeim gjaldmiðli sem í gildi er þar sem þau eru sýnd.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×