Lífið

Dinosaur Jr. með tónleika á Íslandi í sumar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Skemmtilegt band.
Skemmtilegt band. visir/getty
Dinosaur Jr. kemur fram í Silfurbergi í Hörpu þann 22. júlí en þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu.

Dinosaur Jr. var ein af áhrifamestu hljómsveitum jaðarrokksins á níunda áratugnum. Sveitin var stofnuð árið 1984 og kom þá með ferskan andvara inn í rokksenu Bandaríkjanna.

Upprunalegu meðlimirnir eru J Mascis, Lou Barlow og Murph og tóku þeir aðeins upp þrjár plötur í fullri lengd áður en mannabreytingar urðu á sveitinni á síðustu öld. Nú eftir að tríóið tók aftur upp þráðinn hafa strákarnir gefið út fjórar plötur í fullri lengd.

Síðan þeir komu aftur saman hafa þeir vakið sérstaka hrifningu fyrir lifandi flutning og má þar t.d. nefna 30 ára afmælistónleika fyrstu plötu þeirra árið 2015 þar sem þeir buðu áhorfendum upp á hrífandi nostalgíuveislu við frábærar viðtökur.

Fyrir ári gáfu þeir út plötuna Give a Glimpse of What Yer Not með glás af nýju efni en sú plata hlaut mikið lof gagnrýnenda og er með hið stórfína meðaltal 80/100 á Metacritic.

Aðeins 1.200 miðar verða í boði og hefst miðasalan fimmtudaginn 11. maí kl. 10 á Harpa.is/dino.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×