Erlent

Dómari hrósaði fíkniefnasala fyrir frábært viðskiptamódel

Birgir Olgeirsson skrifar
Ef þú myndir afla þér frekari þekkingar þá gæti i raun ræst úr þér. Láttu því vinsamlegast ekki sjá þig aftur í dómsal, sagði dómarinn við piltinn.
Ef þú myndir afla þér frekari þekkingar þá gæti i raun ræst úr þér. Láttu því vinsamlegast ekki sjá þig aftur í dómsal, sagði dómarinn við piltinn. Vísir/Getty
Hinn tvítugi Brodie Gary Satterley var dæmdur til þriggja ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir fíkniefnabrot í Ástralíu í vikunni. Ástæðan fyrir því að mál hans rataði í heimsfréttirnar er sú að dómarinn sem dæmdi í málinu hrósaði piltinum fyrir viðskiptamódelið sem hann studdist við.

Satterley er frá Marroochydore en mál hans fór fyrir hæstarétt í BrisbaneSatterley var átján ára þegar hann hóf að selja fíkniefni. Ef hann lánaði viðskiptavinum sínum fyrir fíkniefnum setti hann vexti á lánið, var með verðskrá yfir vörur sínar, gaf afslætti og endurgreiddi vörur ef viðskiptavinir hans voru óánægðir með þær.

Hann auglýsti einnig að hann væri með hágæða vörur, bað um álit viðskiptavina og hélt meira að segja fundi þar sem viðskiptaáætlun var mótuð.

Dómarinn Ann Lyons sagði við Satterley: „Þetta var augljóslega ekki besti reksturinn, en þetta var gott rekstrarmódel. Þú gætir vafalaust staðið þig vel í rekstri því þú ert greinilega mjög gáfaður. Ef þú myndir afla þér frekari þekkingar þá gæti i raun ræst úr þér. Láttu því vinsamlegast ekki sjá þig aftur í dómsal.“

Satterley var handtekinn í júní árið 2015 en lögreglan kom að honum undir áhrifum í kyrrstæðum bíl. Í bílnum fundu lögreglumenn fíkniefni og komust að því að hann væri fíkniefnasali.

Ástæðan fyrir því að dómarinn ákvað að senda hann ekki í fangelsi er að Satterley átti ekki önnur brot að baki. Þá minntist dómarinn einnig á að pilturinn væri ákveðinn í að koma lífi sínu á rétta  braut og nefndi að Satterley hefði alist upp við afar erfiðar aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×