Enski boltinn

Fellaini sá rautt í markalausum borgarslag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fellaini fékk rautt fyrir að skalla Agüero.
Fellaini fékk rautt fyrir að skalla Agüero. vísir/getty
Manchester City og Manchester United gerðu markalaust jafntefli í borgarslagnum á Etihad í kvöld.

Ekkert mark var skorað en Maraoune Fellaini fékk að líta rauða spjaldið á 84. mínútu fyrir að skalla Sergio Agüero.

City-menn voru mun sterkari aðilinn í leiknum, þá sérstaklega í seinni hálfleiknum þar sem United náði ekki upp neinu spili.

Agüero var hættulegasti maður vallarins í fyrri hálfleik. Hann átti skot í stöng á 10. mínútu og tvær aðrar fínar tilraunir.

United fékk tvö úrvalsfæri í fyrri hálfleik. Fyrst varði Claudio Bravo frá Henrikh Mkhitaryan og Ander Herrera skallaði svo framhjá af stuttu færi.

Í seinni hálfleik jók City pressuna en tókst ekki að koma boltanum yfir línuna. Varamaðurinn Gabriel Jesus skoraði í uppbótartíma en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Það munar áfram einu stigi á liðunum. City er í 4. sæti en United í því fimmta.

Leik lokið: Atkinson flautar til leiksloka. United fer heim með stigið sem liðið spilaði upp á.

90+6. mín: Agüero í fínu færi en hittir ekki markið.

90+1. mín: Varamaðurinn Gabriel Jesus skorar en markið er réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

84. mín: RAUTT!!! Maraoune Fellaini skallar Agüero og Atkinson lyftir rauða spjaldinu! Heimskulegt hjá Belganum.

80. mín: Nóg af skiptingum. Navas kemur inn fyrir Sané og Lingard skiptir við Martial. Þá er Bravo farinn af velli vegna meiðsla og Willy Caballero kominn í mark heimamanna.

66. mín: Leroy Sané með hornspyrnu beint á kollinn á Nicolás Otamendi sem skallar boltann í Eric Bailly og yfir.

65. mín: United hefur ekki náð upp neinu spili í seinni hálfleik og ekkert ógnað marki City.

58. mín: Kevin De Bruyne kemur inn á völlinn og á skot sem fer af varnarmanni og í hliðarnetið. City mun sterkari aðilinn þessa stundina.

47. mín: Sterling með sprett og skot sem De Gea ver auðveldlega.

Seinni hálfleikur hafinn: Þetta er farið af stað á ný! Engar breytingar á liðunum.

Fyrri hálfleik lokið: Atkinson flautar til hálfleiks. Staðan markalaus. City hefur verið meira með boltann og Agüero verið ógnandi en United hefur fengið tvö úrvalsfæri.

45. mín: Rashford með fína aukaspyrnu inn á teiginn á Ander Herrera sem er frír á fjær en nær ekki að stýra boltanum á markið. Þarna á Spánverjinn að gera betur.

43. mín: Sterling með skot yfir eftir að hafa losað sig við Blind sem hefur verið í smá basli hér í fyrri hálfleiknum.

36. mín: Kolarov með skot sem De Gea ver í horn. City-menn halda Spánverjanum við efnið.

33. mín: Agüero leikur á Daley Blind og skýtur yfir. Argentínumaðurinn hefur verið hættulegasti maður vallarins hingað til.

32. mín: Agüero með ágætis skot fyrir utan teig en David De Gea ver.

24. mín: Bravo í tómu rugli, slær fyrirgjöf Martials beint fyrir fæturna á Mkhitaryan sem á skot sem Sílemaðurinn ver. Ekki sannfærandi þarna.

18. mín: Boltinn er of linur. Við fáum nýjan bolta. Bjóðum hann velkominn til leiks.

10. mín: Sergio Agüero í DAUÐAFÆRI en skýtur boltanum í stöngina. Hann er vanur að skora á móti United en gerði það ekki þarna.

6. mín: Mkhitaryan byrjar sem fremsti maður hjá United með Rashford og Anthony Martial á köntunum.

Leikur hafinn: Martin Atkinson flautar til leiks!

Fyrir leik: Það fór vel á með Guardiola og Mourinho fyrir leik. Ekki alltaf verið þannig.

Fyrir leik: United er enn með í Evrópudeildinni en City getur eingöngu einbeitt sér að ensku úrvalsdeildinni.

Fyrir leik: José Mourinho gerir fjórar breytingar á liðinu sem vann 0-2 útisigur á Burnley á sunnudaginn. Antonio Valencia, Michael Carrick, Marcus Rashford og Henrikh Mkhitaryan koma inn fyrir Ashley Young, Paul Pogba, Jesse Lingard og Wayne Rooney.

Fyrir leik: Byrjunarliðin eru komin í hús. Pep Guardiola gerir þrjár breytingar frá tapinu fyrir Arsenal í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn. Pablo Zabaleta, Aleksandar Kolarov og Raheem Sterling koma inn fyrir Jesús Navas, Gaël Clichy og David Silva sem meiddist í leiknum gegn Arsenal.

Fyrir leik: City vann fyrri deildarleik liðanna á Old Trafford með tveimur mörkum gegn einu. United hefndi fyrir tapið með 1-0 sigri í deildabikarnum. Juan Mata skoraði eina mark leiksins.

Fyrir leik: Liðin eru í mikilli baráttu um Meistaradeildarsæti en það munar aðeins einu stigi á þeim. Með sigri fer City upp fyrir Liverpool og í 3. sæti deildarinnar. United getur einnig farið upp í 3. sætið en þá þarf liðið að vinna þriggja marka sigur sem er frekar ólíklegt að gerist.

Fyrir leik: Góða kvöldið og velkomin í beina lýsingu frá leik Manchester-liðanna, City og United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×