Innlent

Leggja til að hækkanir á fæðisgjaldi verði dregnar til baka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. Vísir/Valli
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í borgarráði, lagði til á fundi ráðsins í dag að hækkanir á fæðisgjaldi sem lagt var á síðasta haust verði dregnar til baka.

Var þetta lagt til í ljósi rekstrarniðurstöðu borgarinnar sem var jákvæð um 26 milljarða en ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir 2016 var kynntur á fundi borgarráðs í dag.

Í tillögu Framsóknar og flugvallarvina segir:

„Ljóst er að ársreikningur sem verið er að leggja fram nú gefur svigrúm til slíkts.  Þá lögðum við fram þá tillögu að hækkanir velferðarssviðs sem samþykktar voru í desember 2016 umfram raun hækkanir vísitölu verði einnig látnar ganga til baka.“

Þá segir jafnframt að ljóst sé að íbúar borgarinnar hafi tekið á sig hækkanir langt umfram verðlag og komið þannig til móts við sveitarfélagið þegar hart hafi verið í ári. Þeir eigi núna að njóta þess þegar betur gengur.

 

Fæðisgjald í leik-og grunnskólum borgarinnar hækkaði um 100 krónur á dag frá og með 1. október síðastliðnum.

Breytingin hafði það í för með sér að  fæðisgjald vegna barna í leikskóla sem eru skráð í  sjö til níu klukkustundir á dag hækkar úr 8.320 krónum á mánuði  í 10.480 krónur á mánuði. Þá hækkaði verð fyrir máltíðir nemenda í grunnskólum borgarinnar úr 7.100  krónum í 9.270 á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×