Skoðun

Hættum málflutningi og nýtum þekkinguna

Gísli Sigurðsson skrifar
Einar K. Guðfinnsson skrifar í Fréttablaðið 26. apríl og viðurkennir þar að umhverfinu stafi hætta af opnu sjókvíaeldi á fiski. Einar er bjartsýnn og áræðinn og lítur á þessar hættur sem áskorun. Grein hans var svar við varnaðarorðum mínum í Frbl. 19. apríl. Það væri frábært ef mönnum tækist að mæta þeim áskorunum sem Einar ræðir um. Engar vísbendingar eru þó um að þar sé nokkur von.

Norska ríkisendurskoðunin tók saman skýrslu fyrir nokkrum árum um umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi: https://www.riksrevisjonen.no/en/Reports/Documents/Document_3_9_2011_2012.pdf. Þá rannsókn þarf ekki að vinna aftur fyrir takmarkað íslenskt rannsóknafé. Síðan hefur slysasleppingum eldisfiska að vísu fækkað. Í fréttum frá Skotlandi í aprílbyrjun kom fram að um 20.000 eldislaxar (um helmingur af meðalstangveiði hér á landi) hefðu sloppið hjá sama fyrirtæki og á stóran hlut í Arnarlaxi sem boðar sama „öryggis“búnað hér landi. Slysið í Skotlandi staðfestir að eldislax í sjókvíum mun alltaf sleppa út í náttúruna.

Vísindarannsóknir hafa sýnt þá hættu sem villtu lífríki er búin af sjókvíaeldi. Af þeim nýjustu þekki ég til: „The major threats to Atlantic salmon in Norway“ í ICES Journal of Marine Science (https://www.researchgate.net/publication/314371961_The_major_threats_to_Atlantic_salmon_in_Norway) og „Gene flow from domesticated escapes alters the life history of wild Atlantic salmon“ í Nature (https://www.nature.com/articles/s41559-017-0124).

Niðurstöðurnar eru svo ótvíræðar að við getum sparað okkur „málflutning“ með og á móti sjókvíaeldi eins og nú fer fram hér á landi. Allra síst ætti það að standa upp á íslenskufræðing með áhuga á stangveiði að þurfa að berjast með lyklaborðinu sínu við norsk stórfyrirtæki og auglýsingastofur í máli sem réttsýn stjórnvöld ættu fyrir löngu að hafa fært til betri vegar. Það er hluti af þeim boðorðum sem mannkynið hefur sett sér í umgengni við náttúruna að við skulum ekki útrýma villtum dýrastofnum með háttsemi okkar. Einu viðbrögðin við þeim áskorunum sem fólgnar eru í fiskeldi eru þau að stunda eldið í lokuðum kerfum.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×