Innlent

Segja skipulag ráðherra alvarlega aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga

Austfjarðaþokan liðast inn með fjöllunum við Reyðarfjörð. Undir yfirlýsinguna rituðu meðal annars allir bæjar- og sveitarstjórar á Austurlandi.
Austfjarðaþokan liðast inn með fjöllunum við Reyðarfjörð. Undir yfirlýsinguna rituðu meðal annars allir bæjar- og sveitarstjórar á Austurlandi. vísir/gva
„Við verðum að geta verið við það borð sem tekur ákvarðanir sem varða samfélögin okkur,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, en hann og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, hafa verið í forsvari fyrir hóp bæjar- og sveitarstjóra á Austurlandi og Vestfjörðum sem mótmæla harðlega frumvarpi Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, að nýju haf- og strandsvæðaskipulagi. Segja bæjarstjórarnir að um alvarlega aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga sé að ræða og forræði þeirra í skipulagsmálum.

Ekki er fyrir hendi löggjöf um skipulag á starfsemi á haf- og strandsvæðum og vaxandi eftirspurn er nú eftir athafnasvæðum, meðal annars vegna fiskeldis. Það sé því þörf að skipuleggja slík svæði og í frumvarpinu er lögð áhersla á fjölbreytta nýtingu á haf- og strandsvæðum.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.Mynd/Aðsend
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá bæjarstjórum er ráðherra bent á að skipulagsmál séu eitt mikilvægasta stjórntæki sveitarstjórna. Páll bendir á að lífæð sveitarfélaga fyrir austan séu siglingaleiðirnar um firðina, ásamt því að skipulagsáætlanir í landi verði að fylgja skipulagi á fjörðum. Þess vegna verði þetta að fylgjast að í skipulagi. Þá bendir hann á að ráðherraskipaðir embættismenn hafi neitunarvald samkvæmt frumvarpinu.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir að ekki sé verið að taka skipulagsvaldið af einum né neinum. „Þvert á móti er verið að gefa þeim vald eða aðkomu að skipulagi sem sveitarfélögin höfðu ekki áður. Eins og staðan er núna hafa þau ekkert haft að gera með neitt utan netlaga, en nú leggjum við til að gefa þessum sveitarfélögum aðkomu að þessum ákvörðunum nú þegar við förum í að skipuleggja haf- og strandsvæði sem liggja, eins og staðan er í dag, utan þeirra skipulagsvalds.“

Páll segir að frumvarpið sé þeim nokkur vonbrigði eins og það líti út núna. „Ég er búinn að ræða þetta mál við ráðherra en á okkar rök hefur ekki verið hlustað. Það er búið að ræða þetta mál við þingmenn en það virðist eins og það eigi að fara með þetta óbreytt í gegnum þingið, sem við yrðum mjög ósátt við.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×