Innlent

Borgin sættir sig ekki við sameiginlegt verðmat á Keldnaholti

Húsnæðisvandinn er mikill á höfuðborgarsvæðinu.
Húsnæðisvandinn er mikill á höfuðborgarsvæðinu. vísir/vilhelm
Reykjavíkurborg hefur ekki getað sætt sig við sameiginlegt verðmat hlutlausra aðila sem skipaðir hafa verið af borg og ríki á Keldum og Keldnaholti, Landhelgisgæslureitnum og Þorragötu. Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um ráðstöfun ríkislóða á höfuðborgarsvæðinu.

„Það stendur ekki á okkur að selja þessar lóðir,“ segir Benedikt. Borgin, líkt og önnur sveitarfélög, fari hins vegar með skipulagsréttinn og ef það er ekki búið að skipuleggja lóðirnar sé ekki forsenda til að selja. „Við erum mjög spennt að ganga til samninga um þessi mál og alveg til í að gera samkomulag við borgina eins og við gerðum við Garðabæ til dæmis,“ segir hann en ríkið seldi lóðir við Vífilsstaði auk þess að gera ábatasamning, þar sem ábata af sölu á byggingarrétti yrði skipt milli ríkis og sveitarfélags.

Benedikt Jóhannesson.vísir/ernir
Í svarinu kemur fram að viðræður hafi verið við Reykjavíkurborg með hléum um langt skeið um landið við Keldur og Keldnaholt. Hefur ríkið ítrekað lagt til að gerður yrði ábataskiptasamningur um landsvæðið en í kjölfarið hafi Reykjavíkurborg ákveðið að draga verulega úr uppbyggingu þar með nýju aðalskipulagi, auk þess að seinka uppbyggingu þess. Það eru því ekki forsendur fyrir uppbyggingu landsins í nánustu framtíð.

Í svari Benedikts segir að erindi sé á sínum borðum þar sem óskað er eftir viðræðum um samstarf ríkis og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íbúðar- og leiguhúsnæðis á Landhelgisgæslulóðinni, Sjómannaskólareitnum, SS-reitnum, Borgarspítalareitnum, Veðurstofuhæð og Suðurgötu – Hringbraut. Það erindi sé í eðlilegum farvegi innan ráðuneytisins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×