Körfubolti

Jóhann: Ekki víst að svona tækifæri komi aftur næstu árin

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhann Þór og félagar náðu að knýja fram oddaleik.
Jóhann Þór og félagar náðu að knýja fram oddaleik. vísir/andri marinó
„Þetta var verðskuldað. Það er kannski smá hroki í að segja það en mér fannst þetta allt að því sannfærandi hjá okkur,“ segir ákveðinn þjálfari Grindavíkur, Jóhann Þór Ólafsson, eftir magnaðan sigur liðsins á KR í kvöld.

„Ég er rosalega hreykinn af mínu liði og hvernig við svöruðum er það gaf á bátinn. Við klárum þetta síðan með þvílíkum stæl. Leikmenn eins og Ingvi kom frábær inn í þetta og þetta var magnað.“

Grindvíkingar fórnuðu sér í alla bolta og voru mjög oft skrefinu á undan. Eins og þeir vilji sigurinn meira en KR.

„Okkur langar þetta mikið en hvort okkur langar meira en þeir veit ég ekkert um. Við erum að fara svolítið langt á því að njóta. Gefa okkur alla í þetta og hafa gaman af þessu. Auðvitað er meira á bak við en við förum samt langt á því,“ segir þjálfarinn kátur.

„Liðsheildin er frábær. Það eru allir fyrir einn. Það eru þessar klisjur. Við erum að spila við fantagott KR-lið og við höfum fundið einhvern takt sem er að virka og við spilum vel á okkar styrkleikum. Mér finnst við á köflum gera vel í að finna þeirra veikleika ef hægt er að tala um þá.“

Það er ekki bara það hjá strákunum hans Jóhanns því andlegi styrkurinn hjá liðinu er mikill.

„Við höfum talað mikið um að halda okkur í stundinni og taka eina sókn í einu,“ segir Jóhann Þór en hann hefur alltaf lagt áherslu á að hans lið njóti þess að spila og það verður ekki skemmtilegra en að fá úrslitaleik um titilinn í Vesturbænum.

„Við töluðum um fyrir leik hvað væri í húfi. Fara í stútfulla DHL-höll. Þetta er langstærsta sviðið og ég talaði um að það sé ekkert víst að svona tækifæri bjóðist aftur næstu árin. Þetta ætluðum við okkur og nú er komið að því. Við munum gefa þessu góðan séns.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×