Lífið

Jafnar sig eftir meiðsli

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Þyri Huld Árnadóttir dansari hjá Íslenska dansflokknum meiddist á æfingu. Hún segir skell fyrir atvinnudansara að detta út úr sýnigum.
Þyri Huld Árnadóttir dansari hjá Íslenska dansflokknum meiddist á æfingu. Hún segir skell fyrir atvinnudansara að detta út úr sýnigum. Mynd/Ernir
Þyri Huld Árnadóttir, dansari hjá Íslenska dansflokknum, er að jafna sig eftir meiðsli. Hún segir skell fyrir atvinnudansara að detta út úr sýningum.

"Íslenski dansflokkurinn er eini dansflokkurinn á Íslandi þar sem dansari getur verið í fullu starfi. Það er mikill heiður að vera hluti af honum og fá að þróa danssögu Íslands. Við erum eins og lítil fjölskylda og öll mjög náin,“ segir Þyri Huld Árnadóttir, ein sjö fastráðinna dansara hjá Íslenska dansflokknum.

Undanfarna mánuði hefur Þyri þó ekki getað tekið þátt í sýningum dansflokksins. Hún meiddi sig á æfingu, þremur dögum fyrir sýningu á verkunum Óð og Flexu.

„Óhappið varð þegar við vorum að renna fyrsta kaflanum sem er frekar hraður. Ég lenti illa úr hringhoppi en áttaði mig samt ekki strax á hvað hafði gerst. Eftir ranga greiningu hjá sjúkraþjálfara var ég bara að fara að teipa á mér löppina og halda áfram. Dansflokkurinn var einnig á leiðinni til Danmerkur að sýna Black Marrow sem er mjög krefjandi verk,“ segir Þyri. Bróðir hennar benti henni þá á að líkaminn væri atvinnutæki hennar og hún ætti láta mynda meiðslin.

„Örnólfur bæklunarlæknir þurfti varla annað en að horfa á löppina á mér til að sjá að ég hafði slitið fremra krossbandið. Ég mun ekki dansa í ár,“ segir Þyri. „Þetta var mikill skellur fyrir mig. Ég hef aldrei lent í alvarlegum meiðslum.“

mynd/Ernir
Við tók bið eftir aðgerð en Þyri notaði tímann til að styrkja lærvöðvana svo batinn gengi hraðar. Aðgerðin gekk vel. Þyri segist þó hafa átt erfitt með vikurnar sem fylgdu á eftir.

„Ég held að fyrstu tveir mánuðirnir eftir aðgerðina hafi verið þeir erfiðustu í lífi mínu. Að geta ekki labbað og varla sest á klósettið þegar ég er vön að vera á fullu allan daginn var mjög erfitt. Ég talaði við íþróttafólk í kringum mig sem hafði lent í sömu meiðslum og það hjálpaði mikið að fá ráðleggingar.

Maður finnur líka hvað það er dýrmætt að eiga góða að þegar svona gerist. Það skiptir líka miklu máli að vera með góðan sjúkraþjálfara og gera allt sem hann segir og aldrei meira en það. Núna eru þrír mánuðir liðnir frá aðgerðinni og mér er farið að líða nokkuð vel. Hreyfigetan er orðin frekar góð í hnénu en ég á enn þá langt í land.

Ég er að púsla mér aftur saman. Ég þurfti einnig að passa andlegu hliðina og eftir að ég kom úr aðgerðinni hef ég einbeitt mér að því hlusta á líkamann, hugleiða og gera öndunaræfingar. Ég þarf að passa mig á því að gera ekki of mikið eins og mér hætti til áður fyrr. Reglulegar nálastungur og hnykkingar hjá töframanninum Rikka hafa líka bjargað mér alveg í bataferlinu.“

Sýningarferð með Íslenska dansflokknum til Salzburg.
Stefndi alltaf á dansinn



Þyri er alin upp í Reykjavík, gekk í Breiðagerðisskóla og síðan Réttar­holtsskóla. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann við Sund og loks í Listaháskóla Íslands. Hún segist skapandi í hugsun og hafi aldrei haft gaman af akademísku námi.

„Ég píndi mig í gegnum menntaskólann. Ef ég væri að velja skóla í dag hefði ég farið í Tækniskólann og tekið klæðskera með dansinum. Þegar ég var að velja menntaskóla var mér sagt að ef ég vildi hafa allar dyr opnar í framtíðinni ætti ég að fara á náttúrufræðibraut. Ég vona að þessi hugsunarháttur sé að breytast, hann er svo rangur. Ég var heppin að hafa dansinn með mér í gegnum menntaskólann. Þessi ár voru samt frábær og ég kynntist mínum bestu vinkonum í MS.

Alla mína skólagöngu var ég að æfa ballett sem er einnig mjög gott uppeldi á vissan hátt. Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að hreyfa mig, var alltaf niðri í dal á línuskautum eða eitthvað að bralla úti þegar ég var yngri. Á unglingsárunum hætti ég í ballett og mætti á djassballettæfingu hjá Báru með vinkonum mínum í Réttó. Eftir það varð ekki aftur snúið. Allan menntaskólann var ég á listdansbraut hjá Báru með skólanum. Ég ákvað aldrei beinlínis að verða dansari, ég var bara dansari,“ segir Þyri.*

Fjölskyldan hafi einnig alltaf stutt hana í dansnáminu. Hún er langyngst fjögurra systkina og segist hafa fengið óskipta athygli.

Óður og Flexa í verkinu Óður og Flexa halda afmæli. Mynd/Jónatan Grétarsson
„Ég var mjög góður krakki að ég held, ég er langyngst og eina stelpan,“ segir Þyri sposk. „Ég á þrjá eldri bræður og sá elsti er 20 árum eldri en ég og yngsti 12 árum. Það var alltaf passað vel upp á mig og ég fékk mikla athygli og væntumþykju frá fjölskyldunni minni,“ segir Þyri.

„Ég hefði aldrei getað stundað dansnám frá 5 ára aldri og alla leið í háskóla nema fyrir foreldra mína og er ég þeim mjög þakklát fyrir það. Ég er eini dansarinn í fjölskyldunni en bróðir minn var reyndar svaka break-dansari á sínum tíma. Hann kenndi mér að gera orminn sem hefur verið auðkennissporið mitt í mörg ár,“ segir Þyri og hlær.



„Það er samt mikið af listafólki í fjölskyldunni minni, mamma og pabbi eru bæði mjög handlagin og bræður mínir líka. Ég hef farið með mynd af kjól úr blaði til mömmu og hún saumar hann án þess að vera með nokkurt snið. Pabbi minn gerir allt. Hann er prentari og mjög handlaginn. Yngsti bróðir minn er myndlistarmaður, miðjubróðir minn kokkur og sá elsti lærði kvikmyndagerð. Við erum alin upp við það að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi og vinnusemi. Þegar ég var að byrja að vinna þá sagði mamma við mig: „Ef þú hefur ekki verkefni í vinnunni, ekki setjast niður. Finndu þér eitthvað að gera, t.d. þurrka af hillum.“

Þetta hefur verið mottóið mitt, ég bý mér alltaf til verkefni,“ segir Þyri og það á svo sannarlega við um dansinn.

Þyri hefur samið fleiri en eitt dansverk og verið tilnefnd til Grímunnar.

Allar persónurnar úr 2Óður og Flexa halda afmæli", Freta, Rekviður, Herra glæsibuxur, Óður og Flexa. Mynd/Jónatan Grétarsson
„Ég hef fengið þrjár tilnefningar sem danshöfundur ársins, það var fyrir verkið „Á vit“, sem dansflokkurinn gerði í samstarfi við GusGus. Við dansarar flokksins sömdum verkið ásamt GusGus og sú vinna sýnir hvað við erum samheldin, það gæti ekki hvaða hópur sem er gert það.

Verkið „Óraunveruleikir“ fékk líka tilnefningu en það gerði ég ásamt Urði Hákonardóttur og Valgerði Rúnarsdóttur. Verkið „Óður og Flexa halda afmæli“ fékk tilnefningu sem barnaverk ársins og ég og Hannes Þór Egilsson sem danshöfundar ársins. Þetta verk á mjög stóran stað í hjarta mínu. Það skiptir nefnilega miklu máli að dansflokkurinn geri líka verk fyrir börn því þau eru framtíðin,“ segir Þyri.

„Ef þú hefur ekki verkefni í vinnunni, ekki setjast niður. Finndu þér eitthvað að gera, t.d. þurrka af hillum.“ Þetta hefur verið mottóið mitt, ég bý mér alltaf til verkefni,"Mynd/Ernir
„Óður og Flexa varð til eftir að við Hannes gerðum lítinn dúett saman í verkinu „Fullkominn dagur til drauma“, sem dansflokkurinn setti upp. Við sýndum dúettinn á leikskóla og ákváðum í framhaldinu að sækja um styrk og reyna að gera lítið barnaverk saman. Þá urðu Óður og Flexa til. Við fengum mjög lítinn styrk en hann dugði og við gerðum verkið „Óður og Flexa reyna að fljúga“.

Við sýndum það á Barnamenningarhátíð og eftir það bauð Erna Ómarsdóttir, listdansstjóri Íslenska dansflokksins, okkur að gera verk út frá Óð og Flexu fyrir dansflokkinn. Markmið okkar með Óð og Flexu er að virkja sköpunarkraftinn sem býr í öllum og bjóða krökkum upp á kraftmikinn dans með mikilli gleði.

Við vinnum með látbragð og notum eingöngu klassíska tónlist. Það er svo gaman að sýna krökkum. Þau eru skemmtilegir áhorfendur.

Ég hef einnig verið tilnefnd til Grímunnar sem dansari ársins tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið var það í fyrsta verkinu sem ég dansaði í sem atvinnudansari með Íslenska dansflokknum, „Fullkominn dagur til drauma“. Það var mjög mikill heiður fyrir mig.

Ég fékk Grímuna fyrir tveimur árum fyrir dúett sem heitir Sin, sá dúett er mest krefjandi verkefni sem ég hef fengið sem dansari. í fyrri part dúettsins snerti ég ekki gólfið og hringsnerist um Einar meðdansara minn í mjög flóknum lyftum.“

Þyri og Hrafnkell í Brooklyn
Býr til vegan osta og jógúrt



En þótt líf Þyriar snúist nánast eingöngu um dans á hún þó önnur áhugamál. Hún og kærastinn, Hrafnkell Hjörleifsson, hafa verið dugleg við að ganga á fjöll og ferðast og eiga meðal annars að baki nokkurra mánaða ferðalag um Suður-Ameríku. Fram undan er ferðalag til Níkaragva.

„Hrafnkell stundar mastersnám í NewYork og ég get ekki beðið eftir að hitta hann eftir fjögurra mánaða aðskilnað. Við ætlum að ferðast um Níkaragva með bakpoka,“ segir hún. 

Þyri og Hrafnell í Istanbul. Framundan er ferðalag um Níkaragva.
„Annars á ég fullt af áhugamálum fyrir utan dansinn. Ég elska að hanna og hef gaman af að fræðast um jurtir. Ég elska líka að búa til góðan mat og er alltaf að prófa eitthvað nýtt. Ég bý til dæmis til mína eigin vegan jógúrt og osta. Ég borða hollan og næringarríkan mat því með árunum hef ég fundið hvað hollur matur gerir mikið fyrir líkamann. Ég hef afar breiðan tónlistarsmekk og hlusta á fjölbreytta tónlist, eftir því í hvernig skapi ég er. Ég er reyndar gömul sál og því verður oftast eldri tónlist fyrir valinu,“ segir Þyri.

Hvað gerirðu til þess að slaka á?

„Frá því að ég sleit krossbandið hef ég verið í þjálfun hjá sjálfri mér í því að slaka á og tekst bara nokkuð vel,“ segir Þyri. „Ég byrja hvern morgun á hugleiðslu og öndunaræfingum. Ég fer líka í sund á hverjum degi, skelli mér í kalda pottinn og ligg þar í að minnsta kosti þrjár mínútur og fer svo í heita. Þetta er besta slökun sem ég veit um. Planið er að koma bæði sterkari og skynsamari til baka í dansflokkinn, ferðast síðan með honum um heiminn og sýna hvað hann er frábær.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×