Erlent

Staðgengill Le Pen hættir vegna ummæla um helförina

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-François Jalkh.
Jean-François Jalkh. Vísir/AFP
Jean-François Jalkh, staðgengill Marine Le Pen í embætti formanns frönsku Þjóðfylkingarinnar, hefur látið af störfum vegna ummæla um helförina sem hann er sagður hafa látið falla fyrir mörgum árum.

Le Monde greinir frá þessu, en Jalkh var varaformaður flokksins og tók við formennsku eftir að Le Pen tilkynnti að hún hugðist láta tímabundið af formennsku til að einbeita sér að síðari umferð forsetakosninganna sem fram fara þann 7. maí næstkomandi.

Le Monde segir að Jalkh hafi árið 2000 sagst hafa dregið í efa að eiturgasið Zyklon B hafi verið notað í útrýmingarbúðum þýskra nasista í seinna stríði.

Jalkh hefur sjálfur hafnað því að hafa látið slík ummæli falla og hyggst fara með málið fyrir dómstóla.

Jalkh er Evrópuþingmaður og varaformaður flokksins og var tilnefndur til að taka tímabundið við formennsku, en að ssögn talsmanns flokksins hafnaði hann því í dag.

Evrópuþingmaðurinn Steeve Briois mun nú taka við formennsku í flokknum þar til að Marine Le Pen snýr aftur í stól formanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×