Erlent

Frans páfi mættur í tveggja daga heimsókn til Egyptalands

Atli Ísleifsson skrifar
Frans páfi lenti í Egyptalandi í hádeginu.
Frans páfi lenti í Egyptalandi í hádeginu. Vísir/AFP
Frans páfi er mættur til Egyptalands þar sem tveggja daga heimsókn hans hefst í dag. Ástæða heimsóknarinnar er að reyna að skapa sátt milli kristinna og múslíma, en fjöldi sprengjuárása sem beinst hafa gegn kristnum hafa átt sér stað í landinu síðustu misserin.

Öryggisgæsla er gríðarlega mikil vegna heimsóknar páfa en neyðarástand ríkir í landinu eftir tvær sprengjuárásir í koptískum kirkjum í landinu þessum mánuði. Koptíska kirkjan er stærsta kristna kirkjan í Egyptalandi.

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum tveimur þar sem 45 manns létu lífið.

Í heimsókn sinni til Egyptalands hyggst páfi funda með æðsta imama al-Azhar moskunnar. Þá hyggst hann ásamt Tawadros öðrum, páfa koptísku kirkjunnar, heimsækja kirkju sem varð fyrir sprengjuárás í desember þar sem 29 manns létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×