Formúla 1

Ferrari menn fljótastir á föstudegi

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Kimi Raikkonen var fljótastur á fyrri æfingunni.
Kimi Raikkonen var fljótastur á fyrri æfingunni. Vísir/Getty

Kimi Raikkonen á Ferrari var fljótastur á fyrri æfingu dagsins fyrir rússneska kappaksturinn sem fram fer um helgina. Sebastian Vettel, einnig á Ferrari varð fljótastur á seinni æfingunni.

Fyrri æfingin
Valtteri Bottas á Mercedes var annar fljótastur á æfingunni, einungis 0,045 sekúndum á eftir Raikkonen. Lewis Hamilton varð þriðji á Mercedes og Max Verstappen á Red Bull fjórði, þo rúmlega sekúndu á eftir Raikkonen.

Hluti af yfirbyggingunni á Force India bíl Esteban Ocon losnaði af og olli því að rauðum flöggum var veifað um skamma stund.

Sergey Sirotkin, þróunarökumaður Renault fékk að spreyta sig á æfingunni í bíl Nico Hulkenberg. Hann náði þó ekki að setja tíma, hann fór einn uppstillingarhring. Eftir það kom hann út á brautina en nam staðar í beygju tvö og sagði vélina hafa bilað. Hann tók ekki frekari þátt í æfingunni. Það er því ljóst að einhver vandræði eru með Renault vélina.

Romain Grosjean átti eitt ógnvekjandi augnablik á brautinni þegar hann missti getuna til að hemla. Vísir/Getty

Seinni æfingin
Raikkonen varð annar á seinni æfingunni. Ferrari bíllinn virðist finna sig vel á brautinni í Sochi. Frá því brautin í Sochi var vígð í kappakstrinum 2014 hefur einungis Mercedes liðið unnið á brautinni. Það gæti breyst á sunnudag.

Haas liðið hefur glímt við bremsuvandamál frá því liðið varð til, fyrir tímabilið í fyrra. Nú er svo komið að um helgina ætlar liðið að prófa bremsubúnað frá Carbon Industry í stað Brembo, sem liðið hefur notast við hingað til.

Á æfingunni missti Romain Grosjean alla hemlun úr Carbon Industry bremsunum sínum.

Bottas varð þriðji á seinni æfingunni. Hamilton varð fjórði.

Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 11:50 á morgun á Stöð 2 Sport og bein útsending frá keppninni hefst klukkan 11:30 á sunnudag á Stöð 2 Sport 3.

Hér að neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira