Erlent

Michelle Obama segist ekki ætla í framboð

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna kom í dag í fyrsta sinn fram opinberlega síðan hún lét af embætti í lok janúar.
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna kom í dag í fyrsta sinn fram opinberlega síðan hún lét af embætti í lok janúar. Vísir/Getty
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna kom í dag í fyrsta sinn fram opinberlega síðan hún lét af embætti í lok janúar. Háværar raddir hafa kallað eftir því að hún sækist eftir að vera forsetaefni Demókrata fyrir næstu forsetakosningar þar í landi árið 2020. Hún segir það þó ekki vera á dagskránni.

Obama sat fyrir svörum á ráðstefnu arkitekta í Orlando í Flórídaríki. Sagði hún þar meðal annars að stjórnmál væru krefjandi.

„Það er allt í góðu þangað til þú ferð í framboð, þá koma klærnar í ljós.“

Hún sagði að hún myndi ekki vilja leggja það á dætur þeirra hjóna að fara í framboð.

„Ég myndi ekki biðja börnin mín að gera þetta aftur því þegar þú býður þig fram í svona stórt embætti þá snýst þetta ekki bara um þig, heldur alla fjölskylduna,“ sagði hún en bætti við að starf í þágu almennings væri fjölskyldunni í blóð borið.

Erfitt að kveðja Hvíta húsið

Obama forðaðist að nefna Donald Trump Bandaríkjaforseta á nafn á viðburðinum en talaði þó stuttlega um „nýja forsetann.“

Hún sagði að erfitt hefði verið að kveðja Hvíta húsið, þann stað sem hún hefði búið lengst á yfir ævina.

„Ég vildi ekki vera með tár í augunum því fólk myndi halda að ég væri grátandi yfir nýja forsetanum,“ sagði hún.

Hún sagði jafnframt að lífið væri öðruvísi eftir flutningana. Dætur þeirra geti nú opnað gluggana á herbergjum sínum og fjölskylduhundarnir verði ringlaðir þegar þeir heyri í dyrabjöllunni, en það er ekki hljóð sem heyrist innan Hvíta hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×