Innlent

Yfir fimmtíu samningar gerðir með keðjuábyrgð

Svavar Hávarðsson skrifar
Brot gegn starfsmönnum hafa ítrekað komið upp í verktakastarfsemi hérlendis, en reglunum er ætlað að tryggja að slíkt gerist ekki.
Brot gegn starfsmönnum hafa ítrekað komið upp í verktakastarfsemi hérlendis, en reglunum er ætlað að tryggja að slíkt gerist ekki. vísir/gva
Landsvirkjun gerði rúmlega fimmtíu samninga með ákvæðum um keðjuábyrgð árið 2016, sem byggja á reglum sem fyrirtækið setti sér í lok ágúst síðastliðins. Reglunum er ætlað að tryggja að allir sem vinna fyrir Landsvirkjun á óbeinan hátt, hjá verktökum, undirverktökum eða starfsmannaleigum, njóti réttinda og kjara í samræmi við lög og kjarasamninga.

Þetta kom fram í máli Jónasar Þórs Guðmundssonar, stjórnarformanns Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins á miðvikudag. Hann sagði að með þessum nýju reglum sé leitast við að tryggja enn betur réttindi starfsmanna. Hann sagði Landsvirkjun leiða þróun í þessa átt, en keðjuábyrgð þýðir í grunninn að aðalverktaki er gerður ábyrgur fyrir að tryggja kjarasamnings- og lögbundin réttindi allra starfsmanna sem að verkinu koma. Aðrir sem hafa farið sömu leið og Landsvirkjun eru Ríkiskaup og tvö stærstu sveitarfélög landsins; Reykjavíkurborg og Ak­ur­eyr­ar­bær.

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar
Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun getur fyrirtækið samkvæmt nýjum reglum beitt dagsektum þar til úr er bætt og/eða haldið eftir greiðslum, eins og til dæmis vegna verksamninga.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, lagði lagafrumvarp fyrir þingið nýlega en það bíður enn þinglegrar meðferðar. Verði það að lögum bindur það endahnútinn á baráttumál sem hefur legið á borði verkalýðs- og fagfélaga auk samtaka atvinnurekenda sem hafa haldið úti baráttu gegn brotum sem í daglegu máli hafa verið kölluð hrakvinna; þegar kjarasamningar, lög og skilyrði um aðbúnað eru virt að vettugi.

Í raun er frumvarpið viðbragð við brotum á ákvæðum kjarasamninga og vinnulöggjafar, félagslegum undirboðum og ýmsum tegundum skattsvika sem tengjast verktakastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði, eins og kemur fram í tillögu til þingsályktunar um starfshóp um keðjuábyrgð, frá hendi þingmanna Vinstri grænna frá því á yfirstandandi þingi.

Fram hefur komið í fréttum af brotum gegn ákvæðum kjarasamninga og vinnulöggjafar að þau bitna oft á erlendum starfsmönnum verktakafyrirtækja. Talsmenn verkalýðssamtaka benda á að kjör erlendra starfsmanna sem starfa á vegum erlendra undirverktaka að verkefnum hér á landi hafi í ýmsum tilvikum reynst langtum lakari en íslenskir kjarasamningar og reglur um aðbúnað heimila, segir í greinargerð þingsályktunartillögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×