Erlent

Norður-Kórea framkvæmir enn eina eldflaugatilraunina

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá annari eldflaugatilraun í Norður-Kóreu á dögunum
Frá annari eldflaugatilraun í Norður-Kóreu á dögunum Vísir/EPA
Hernaðaryfirvöld í Norður-Kóreu reyndu í dag að sprengja flugskeyti í tilraunarskyni en án árangurs. Þetta segja yfirvöld í Suður-Kóreu. BBC greinir frá.

Ekki er vitað af hvaða tegund eldflaugin er, eða hversu langt hún hefur drifið. Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa ekki tjáð sig um málið.

Fyrr í dag biðlaði Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til alþjóðasamfélagsins að aðstoða við að þvinga Norður-Kóreu til að hætta öllum eldflauga- og kjarnorkutilraunum.

Gríðarleg spenna er á Kóreuskaga um þessar mundir og miklar heræfingar hafa farið fram beggja vegna landamæra Kóreuríkjanna undanfarna daga.

Samkvæmt fréttastofu Reuters mistókst tilraunin sem gerð var í dag.

Yfirvöld Norður-Kóreu hafa sett sér að markmiði að koma fyrir svokölluðum „kjarnaoddi“ (nuclear warhead) á langdræga eldflaug (ICBM), sem næði til skotmarka um allan heim. Þá hafa yfirvöld framkvæmt fimm kjarnorkutilraunir á undanförnum árum auk þess sem eldflaugum hefur ítrekað verið skotið á loft.

Stjórnvöld Kína hafa varað stjórnendur Norður-Kóreu við því að framkvæma frekari kjarnorkuvopnatilraunir. Ef það yrði gert myndu Kínverjar beita einræðisríkið viðskiptaþvingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×