Erlent

Trump ekki kátur með eldflaugatilraunir Norður-Kóreu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump hefur reynt að glíma við Norður-Kóreu að undanförnu.
Donald Trump hefur reynt að glíma við Norður-Kóreu að undanförnu. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er ekki sáttur við eldflaugatilraun Norður-Kóreu sem gerð var í gærkvöldi. Hann segir að með tilrauninni hafi Norður-Kórea vanvirt Kína, það sé slæmt.

„Norður-Kórea vanvirti óskir Kínverja og háttvirts forseta ríkisins þegar það framkvæmdi tilraunina, þó án árangurs. Slæmt!“ skrifaði Trump á Twitter-síðu sinni.

Gríðarleg spenna er á Kóreuskaga um þessar mundir og miklar heræfingar hafa farið fram beggja vegna landamæra Kóreuríkjanna undanfarna daga. Yfirvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu segja að tilraun Norður-Kóreu hafi misheppnast og að flugskeytið hafi sprungið örfáum sekúndum eftir að því var skotið á loft.

Yfirvöld Norður-Kóreu hafa sett sér að markmiði að koma fyrir svokölluðum „kjarnaoddi“ (nuclear warhead) á langdræga eldflaug (ICBM), sem næði til skotmarka um allan heim.

Alþjóðasamfélagið hefur á undanförnum árum reynt að stemma stigu við þessari þróun, þar á meðal með viðskiptaþvingunum, án teljandi árangurs.

Líklegt þykir að enn frekari þvinganir verði settar á Norður-Kóreu í kjölfar tilraunarinnar og mögulegt er að bandaríkjaher sendi fleiri skip og flugvélar á svæðið en nú þegar er herinn með töluverðan viðbúnað á svæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×