Umfjöllun og viðtöl: Valur - Víkingur Ó. 2-0 | Valur byrjar með látum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/andri marinó
Valsmenn hófu leik í Pepsi-deild karla þetta sumarið með góðum sigri á Víkingi Ó. á Hlíðarenda í kvöld. Lokatölur 2-0 en sigurinn hefði geta verið mun stærri.

Heimamenn réðu ferðinni lengst af og hefðu léttilega getað skorað tvö til þrjú mörk í fyrri hálfleik. Flestar sóknir liðsins fóru upp hægri vænginn þar sem Dion Acoff lék lausum hala.

Kristinn Ingi Halldórsson lék í framlínu Vals og fékk tvö ákjósanleg færi en besti maður gestanna, markmaðurinn Cristian Martinez Liberato, lokaði á hann.

Það sama var upp á teningnum í síðari hálfleik. Valsmenn fengu færin og gestirnir vörðust. Acoff var áfram sprækur og það var að lokum hann sem braut ísinn á 65. mínútu.

Boltinn barst óvænt til hans í teignum og hann gerði allt rétt. Varamaðurinn Nikolaj Hansen gerði svo út um leikinn þegar hann tók eigið frákast og setti boltann í autt markið.

Valsmenn spiluðu á köflum frábæran fótbolta og hefðu getað skorað mun fleiri mörk í leiknum. Ljóst er að Víkingum bíður töluverð vinna á æfingarsvæðinu en liðið virkaði óslípað

Einkunnir

Valur 4-2-3-1: Anton Ari Einarsson 6 - Arnar Sveinn Geirsson 7, Orri Sigurður Ómarsson 7, Rasmus Steenberg Christiansen 7 , Bjarni Ólafur Eiríksson 7 - Haukur Páll Sigurðsson 6 (F), Einar Karl Ingvarsson 6, Nicolas Bogild 6 (Guðjón Pétur Lýðsson (’81), - Dion Acoff 8*, Kristinn Ingi Halldórsson (Nikolaj Hansen ’65 7) 7, Sigurður Egill Lárusson 6 (Sveinn Aron Guðjohnsen ’47 8).

Víkingur Ó. 4-2-3-1: - Christian MartinezLiberato8 - Emir Dokara 4 , Tomasz Luba 4, Alex Ageia Acame (Mirza Mucjic ‘ 79) 4, Hörður Ingi Gunnarsson 3 - Gunnlaugur Hlynur Birgisson 5, Egill Jónsson (Þorsteinn Már Ragnarsson ’72) 5, Kenan Turudija 5 - Alonso Sanchez Gonsalez 5, Guðmundur Steinn Hafsteinsson 6 (F), Alfreð Már Hjaltalín (Pape Mamado Faye ’69 5) 5.

Vísir/Andri Marinó

Af hverju vann Valur?

Valsmenn voru einfaldlega sterkari á öllum sviðum leiksins. Varnarlega lokuðu þeir á flest það sem Víkingur var að reyna inn á vellinum. Sóknarlega opnuðu þeir vörn gestanna ítrekað, bæði í fyrri og í seinni hálfleik og það er í raun ótrúlegt að fyrsta markið skuli ekki hafa litið dagsins ljós fyrr en á 65. mínútu.

Ljóst er að Valsliðið lítur afar vel út ef marka má fyrsta leik liðsins og geta þeir hlakkað til næsta leiks.

Þessir stóðu upp úr

Hægri vængur Valsmanna var afar öflugur í leiknum. Aftur og aftur komst Dion Acoff inn fyrir vörn Víkinga hægra megin frá og megnið af bestu færum Valsmanna komu eftir spil upp hægri kantinn.

Þá kom Sveinn Aron Guðjohnsen mjög sterkur til leiks eftir að hann kom inn á sem varamaður. Hann lagði upp seinna mark Vals og skapaði hættuleg færi fyrir liðsfélaga sína.

Þá var Kristinn Ingi Halldórsson, fremsti maður Valsara, duglegur að stinga sér inn fyrir vörnina og fékk hann fín færi en Christian Martinez Liberato var drjúgur í markinu og gestirnir geta þakkað honum fyrir að þeir fara með stig heim í pokanum góða.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Víkinga var ekki upp á marga fiska, þeim gekk illa að losa vörnina undan pressu heimamanna og fengu varnarmenn Víkinga því lita hvíld. Þá átti Hörður Ingi Gunnarsson, vinstri bakvörður, dapran leik en hann réði ekkert við Acoff á kantinum. Ljóst er að Víkingar þurfa að slípa sig töluvert betur saman fyrir næsta leik.

Hvað gerist næst?

Valsmenn fara upp á Skaga þar sem þeir mæta ÍA í hörkuleik. Ljóst er að þeir þurfa að næla sér í stig þar til þess að vera vel í stakk búnir fyrir leikina sem bíða eftir næsta leik. Stórleikir gegn FH og KR eru framundan.

Víkingar taka hins vegar á móti KR og þurfa að nýta heimavöllinn vel og æfa vel í vikunni til þess að eiga séns gegn sterku liði KR.

Ólafur Jóhannesson hefur náð flottum árangri með Val.vísir/hanna

Óli kátur með sína leikmenn en ósáttur við umfjöllun

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna var ánægður með sína menn eftir góðan sigur Vals á Víkingi Ólafsvík í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla. Hann var þó mjög gagnrýninn á umfjöllun Pepsi-markanna um Valsliðið í sérstökum upphitunarþætti fyrir mótið.

Valsmenn léku á löngu köflum fantafínan fótbolta og hefðu með smá heppni getað útbúið markasúpu á Hlíðarenda. Leikmenn liðsins óðu hreinlega í færum en inn vildi boltinn ekki fyrr en Dion Acoff braut ísinn á 65. mínútu.

„Við fengum nú ansi mörg færi í þessum leik en svo loksins datt það inn fyrir okkur. Ég er ánægður með það að vinna leikinn og halda markinu hreinu,“ sagði Ólafur í samtali við Vísi eftir leik.

Víkingar bættu reyndar í eftir að hafa fengið markið á sig og fengu ágætis færi til þess að jafna en Valsmenn gerðu út um leikinn á 79. mínútu þegar varamaðurinn Nikolaj Hasen skoraði seinna mark leiksins. Ólafur var mjög feginn því að seinna markið skyldi loksins detta.

„Það var mikill léttir. Ósjálfrátt fórum við til baka en í upphafi móts erum við hræddir um að missa forskotið þannig að það var ánægjulegt að fá annað markið.“

Telur umfjöllun Pepsi-markanna ófaglega

Hljóðið breyttist þó í Ólafi þegar hann var spurður út í hvort að búast mætti við því að Valur fengi nýja leikmenn til liðs við sig áður en leikmannaglugginn lokar. Sagði Ólafur að engir nýjir leikmenn væru á leiðinni og gagnrýndi hann umfjöllun sérstaks upphitunarþáttar Pepsi-markanna um Valsliðið áður en mótið hófst.

Þar ræddu Hörður Magnússon, stjórnandi þáttarins, ásamt Óskari Erni Þorvaldssyni og Hjörvari Hafliðasyni Valsliðið en meðal þess sem þar bar á góma var að leikmaður á borð við danska framherjann Patrick Pedersen, sem spilaði við góðan orðstýr hjá Val árið 2015, myndi gera mikið fyrir Valsliðið. Ólafur horfði á þáttinn og var ekki sáttur.

„Ég hafði ekkert að gera, var að drepa dauðan tíma og þá horfði ég á þetta. Þeir töluðu um Valsliðið að ef þessi kæmi og þessi kæmi þá yrðu þeir frábærir. Hvurslags umfjöllun er þetta? Talið bara um þá sem eru fyrir,“ sagði Ólafur og svaraði því játandi hvort að honum fyndist þeir leikmenn sem fyrir væru nógu góðir til að ná markmiðum tímabilsins.

„Mér fannst þessi umfjöllun ófagleg. Það er eins og menn séu í Football Manager upp í slotinu þarna,“ sagði Ólafur að lokum.

Ejub Purisevic, þjálfari Víkinga.vísir/eyþór

Ejub: Bæði jákvætt og neikvætt

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ó. var ánægður með ýmislegt í leik sinna manna en sagði að Valur hefðu unni sanngjarnan sigur.

„Valur var betri og þetta var sanngjörn niðurstaða. Við áttum bæði í fyrri og seinni hálfleik fína kafla. Það var jákvætt og hægt að byggja ofan á,“ sagði Ejub í samtali við Vísi eftir leik.

Sagði hann jákvætt að liðið hafi verið agað og haldið skipulagi út leikinn, þá var hann mjög ánægður með hvernig leikmenn hans gáfu í eftir að hafa lent undir og spilaði liðið vel á köflum eftir það, með smá heppni hefði liðið ef til vill geta jafnað.

„Ég var mjög ánægður eftir markið. Þá rönkuðum við við okkur og áttum okkar besta kafla eftir markið. Svo skorar Valur seinna markið þá er þetta rosalega erfitt,“ sagði Ejub sem taldi þó ljóst að sínir menn þyrfti að bæta sig fyrir næsta leik.

„Það vantar upp á að halda boltanum miklu betur uppi. Við gerðum Valsmönnum þetta mjög auðvelt fyrir. Við skiluðum þeim boltanum nánast aftur til baka,“ sagði Ejub.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira