Innlent

Rúnar Marvinsson dró fram pönnuna fyrir ítalskan matgæðing

Kristján Már Unnarsson skrifar

Meistarakokkurinn Rúnar Marvinsson tók fram pottinn og pönnuna á ný þegar hann var fenginn til að elda saltfisk fyrir ítalskan matarblaðamann í Ólafsvík á dögunum. Fjallað var um málið í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan. 

Ítalski blaðamaðurinn Giovanni Angelucci var búinn að kynna sér saltfiskverkun í KG á Rifi og Valafelli í Ólafsvík með verkefnisstjóra Íslandsstofu, Kristni Björnssyni, þegar við hittum þá fyrir utan heimahús í Ólafsvík. Þeir voru á leið í veislu til eigenda Valafells, Kristínar Vigfúsdóttur og Erlings Jónassonar.

Í eldhúsinu var enginn annar en Rúnar Marvinsson, sem matargagnrýnandinn Jónas Kristjánsson kallar ókrýndan konung íslenskrar sjávarréttamatreiðslu. Á veitingastaðnum „Við Tjörnina“ og áður á Hótel Búðum var Rúnar brautryðjandi í að kynna fjölbreyttari nýtingu sjávarfangs. Rúnar minnist þess að það þýddi ekkert að bjóða Íslendingum þorsk á matseðlinum á Búðum árið 1980. 

„En þetta hefur breyst mjög mikið. Nú eru allir með þorsk, - og allsstaðar þorskhnakki. Það er eins og það sé ekkert á þorskinum nema hnakki,“ segir Rúnar og hlær. 

Og það er einmitt saltaður þorskhnakki sem hinn ítalski og aðrir gestir fá í aðalrétt en Íslandsstofa bauð blaðamanninum til landsins til að kynna íslenska saltfiskinn.

Kristinn Björnsson, verkefnisstjóri Íslandsstofu, í saltfiskveislu á heimili eigenda Valafells í Ólafsvík. Stöð 2/Sigurjón Ólason.

„Hann er svona gastronomi-blaðamaður og er á ferð um landið, - er á Snæfellsnesi í dag, - og fær að kynnast þar fiskverkun og síðan fær hann að njóta saltfisks hjá Kristínu í Valafelli,“ segir Kristinn Björnsson, en hann vinnur hjá Íslandsstofu við að kynna þorskafurðir í Suður Evrópu.

Umfjöllun ítalska blaðamannsins um saltfiskinn má sjá hér.

Þegar við spyrjum hvar Rúnar Marvinsson sé í dag þá segist hann sestur í helgan stein,- vera kominn fram yfir síðasta söludag.

„Núna er ég bara á Hótel Ríkið, ég fæ 180 þúsund á mánuði, held ég, kannski komið í 200 þúsund. Ég þarf ekki að kvarta.

Er búsettur á Hellissandi núna. Ég kann bara mjög vel við mig hérna á Nesinu allsstaðar. Þetta er eðalfólk hér allsstaðar sem ég hef kynnst.“ 

Við heyrum meira af Rúnari Marvinssyni og saltfiskréttum í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld, á mánudag. Hér má sjá myndbrot úr þættinum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira