Fótbolti

Fyrst var Messi dæmdur í bann og nú var þjálfarinn rekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edgardo Bauza og Lionel Messi.
Edgardo Bauza og Lionel Messi. Vísir/AFP

Argentínumenn ráku landliðsþjálfarinn sinn í nótt en knattspyrnulandslið þjóðarinnar er í mikilli hættu á að missa af heimsmeistarakeppninni í Rússlandi 2018.

Edgardo Bauza þurfti að taka pokann sinn en hann fékk aðeins átta leiki sem þjálfari argentínska fótboltalandsliðsins.

Argentína er í í fimmta sæti í Suður-Ameríku riðlinum en aðeins fjögur efstu þjóðirnar komast beint inn á HM á næsta ári. Fimmta sætið gefur hinsvegar sæti í umspili á móti þjóð frá Eyjaálfu.

Hinn 59 ára gamli Edgardo Bauza tók við argentínska liðinu í ágúst og undir hans stjórn vann liðið „bara“ 3 leiki af 8 og töpin voru jafnmörg og sigrarnir.

Síðasti leikurinn undir stjórn Edgardo Bauza var 2-0 tap á móti Bólivíu en það var fyrsti leikurinn í fjögurra leikja banni Lionel Messi.

Messi var settur í fjögurra leikja bann af FIFA fyrir framkomu sína gagnvart aðstoðardómara í 1-0 sigurleik Argentínu á móti Síle. Messi fékk samt að klára leikinn þar sem hann skoraði sigurmarkið.

Argentína á fjóra leiki eftir í undankeppninni en næsti leikur er á móti Úrúgvæ 31. ágúst næstkomandi.

Argentína hefur verið með á öllum heimsmeistaramótum frá og með HM í Vestur-Þýskalandi 1974 en Argentínumenn misstu síðast af HM þegar mótið fór fram í Mexíkó 1970.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira