Fótbolti

Fyrst var Messi dæmdur í bann og nú var þjálfarinn rekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edgardo Bauza og Lionel Messi.
Edgardo Bauza og Lionel Messi. Vísir/AFP

Argentínumenn ráku landliðsþjálfarinn sinn í nótt en knattspyrnulandslið þjóðarinnar er í mikilli hættu á að missa af heimsmeistarakeppninni í Rússlandi 2018.

Edgardo Bauza þurfti að taka pokann sinn en hann fékk aðeins átta leiki sem þjálfari argentínska fótboltalandsliðsins.

Argentína er í í fimmta sæti í Suður-Ameríku riðlinum en aðeins fjögur efstu þjóðirnar komast beint inn á HM á næsta ári. Fimmta sætið gefur hinsvegar sæti í umspili á móti þjóð frá Eyjaálfu.

Hinn 59 ára gamli Edgardo Bauza tók við argentínska liðinu í ágúst og undir hans stjórn vann liðið „bara“ 3 leiki af 8 og töpin voru jafnmörg og sigrarnir.

Síðasti leikurinn undir stjórn Edgardo Bauza var 2-0 tap á móti Bólivíu en það var fyrsti leikurinn í fjögurra leikja banni Lionel Messi.

Messi var settur í fjögurra leikja bann af FIFA fyrir framkomu sína gagnvart aðstoðardómara í 1-0 sigurleik Argentínu á móti Síle. Messi fékk samt að klára leikinn þar sem hann skoraði sigurmarkið.

Argentína á fjóra leiki eftir í undankeppninni en næsti leikur er á móti Úrúgvæ 31. ágúst næstkomandi.

Argentína hefur verið með á öllum heimsmeistaramótum frá og með HM í Vestur-Þýskalandi 1974 en Argentínumenn misstu síðast af HM þegar mótið fór fram í Mexíkó 1970.
Fleiri fréttir

Sjá meira