Viðskipti innlent

Hækkun húsnæðisverðs aðaldrifkraftur verðbólgunnar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hækkun húsnæðisverð er sagður einn aðaldrifkraftur verðbólgunnar.
Hækkun húsnæðisverð er sagður einn aðaldrifkraftur verðbólgunnar. Vísir/Anton

Greiningardeild Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans spá báðar hækkun á vísistölu neysluverðs í apríl.

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluvers hækki um 0,4 í apríl. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 1,6% í 1,8%

Í frétt á vef Íslandsbanka segir að verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafi versnað frá síðustu spá. Annars vegar vegna þess að gert er ráð fyrir lægra gengi krónunnar og hins vegar vegna hraðari hækkunar íbúðaverðs framan af spátímanum en áður.

„Við gerum þó enn ráð fyrir að verðbólga verði undir 2,5% markmiði Seðlabankans allt árið 2017, og mælist 2,2% í árslok. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast að nýju, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 1. ársfjórðungi 2018 og verða að jafnaði 3,4% á seinni hluta spátímans.“

Spá hækkun um 0,2%

Hagfræðideild Landsbankans spáir því hins vegar að vísitalan hækki um 0,2% milli mánuða og gangi sú spá eftir helst ársverðbólogan óbreytt í 1,6%

Í Hagsjá Landsbankans segir að húsnæðisverð og óvissa um gengi krónunnar séu helstu áhrifa þættir sem horft er til varðandi þróun næstu mánuði.

„Hækkun húsnæðisverðs er aðaldrifkraftur verðbólgunnar nú. Við gerum ráð fyrir að hækkanir næstu mánuði verði svipaðar og verið hefur seinustu mánuði. Hækki húsnæðisverð meira mun það að öðru óbreyttu hafa í för með sér hærri verðbólgu.“

Þá segir einnig að óvissa um gengi krónunnar hafi aukist nokkuð síðustu mánuði, meðal annars vegna afléttingu fjármagnshafta og valdi það meiri óvissu í verðbólguhorfum.
Fleiri fréttir

Sjá meira