Skoðun

Að hafa vit fyrir þjóðinni

Róbert H. Haraldsson skrifar
Meirihluti þjóðarinnar vill ekki áfengi í matvöruverslanir. Sumir alþingismenn vilja á hinn bóginn fara þvert gegn vilja þjóðarinnar í þessu máli. Einn þeirra orðaði það svo að stundum þyrftu þingmenn að taka slaginn og keyra mál í gegn. Þetta vekur upp spurningu um forræðishyggju. Hvenær eiga þingmenn að hafa vit fyrir þjóðinni og þvinga hana til að gera eitthvað sem hún vill ekki gera?

Forræðishyggja á sér fáa verjendur nú um stundir. En þingið hefur óneitanlega vit fyrir þjóðinni á ýmsum sviðum, t.d. með lögum um fjármálamarkaði eða lyfjaframleiðslu. Almenningur treystir þar á leiðsögn kjörinna fulltrúa sinna. Forræðishyggja áfengisfrumvarpsmanna verður því ekki fordæmd að óathuguðu máli. Skoða verður hvert mál fyrir sig.

Þrennt kemur helst til álita til að réttlæta forræðishyggju flutningsmanna áfengisfrumvarpsins.

Í fyrsta lagi mætti e.t.v. réttlæta forræðishyggju þeirra með vísun til þjóðarhags. En þeim þingmönnum sem vilja stórauka aðgengi að áfengi og leyfa áfengisauglýsingar, og stuðla þannig að aukinni áfengisneyslu, hefur mistekist að sýna fram á að það sé þjóðarhagur. Þeir hafa ekki sýnt að námsárangur ungmenna batni við aukna áfengisneyslu eða að lýðheilsa batni. Þeir hafa ekki heldur sýnt að glæpum og umferðaróhöppum fækki með aukinni áfengisneyslu eða að heimilisofbeldið minnki. Umræddum þingmönnum hefur einfaldlega mistekist að sýna að þjóðarhagur kalli á aukna áfengisneyslu. Þeir geta því ekki beitt þessum rökum til að réttlæta forræðishyggju sína.

Í öðru lagi gætu umræddir þingmenn reynt að réttlæta forræðishyggju sína í krafti þekkingar. Þeir séu einfaldlega betur upplýstir en þjóðin. En þessi rök eiga ekki við hér. Öðru nær, þjóðin virðist mun betur upplýst um afleiðingar áfengisdrykkju en umræddir þingmenn. Öfugt við þá virðist þjóðin reiðubúin að skoða reynslu einstaklinga af áfengisdrykkju og hún er til í að hlusta á rannsóknir og rök fræðimanna um afleiðingar áfengisdrykkju. Þingmennirnir geta því ekki beitt þekkingarrökum til að réttlæta forræðishyggju sína.

Í þriðja lagi og til þrautavara gætu þingmennirnir vísað á réttlæti til að verja forræðishyggju sína. Öfugt við þjóðina berjist þeir fyrir réttlæti óháð afleiðingum. En er áfengi í matvöruverslanir réttlætismál? Réttlæti er flókið hugtak, í senn lagalegt og siðferðilegt. Það hefur enginn lagalegan rétt á að selja áfengi í matvöruverslunum. Stjórnarskráin ver ekki rétt manna til þess. Menn hafa heldur ekki siðferðilegan rétt á að selja öðrum mönnum skaðlega vöru. Öðru nær, samfélagið hefur rétt á að skipuleggja verslun með vörur sem eru skaðlegar samfélaginu. Á Íslandi er núverandi fyrirkomulag á sölu áfengis með þeim hætti að bæði einstaklingsfrelsi og lýðheilsusjónarmið eru virt.

Höfnum forræðishyggju áfengisfrumvarpsmanna. Segjum nei við áfengi í matvöruverslanir.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×