Körfubolti

Hörður Axel ekki í sumarfrí strax | Klárar tímabilið á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. Vísir/Anton
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar duttu út úr úrslitakeppninni í gærkvöldi eftir naumt tap fyrir KR. Hörður Axel er hinsvegar ekki kominn í sumarfrí eins og félagar hans.

Karfan.is segir frá því að Hörður Axel Vilhjálmsson sé búinn að semja við ítalska liðið Bondi Ferrara og klárar tímabilið með þeim.

„Umboðsmaðurinn hringdi seint í gærkvöldi eftir leik og sagði mér að þetta væri í boði að fara til Ítalíu til liðs Bondi Ferrara og klára með þeim tímabilið. Þetta eru tveir leikir með þeim og svo bara búið.  Við ákváðum að stökkva á þetta þannig að ég er hérna uppfrá uppí flugstöð bara á leiðinni út." sagði Hörður í samtali við Karfan.is.

Ferrara-liðið er í tólfta sæti ítölsku b-deildarinnar en liðið þarf á hjálpa að halda enda búið að tapa þremur leikjum í röð.

„Að öllum líkindum er þetta snarpa tækifæri Harðar að gerast vegna þess að skotbakvörður þeirra Terrence Roderick tjáði stjórnarmönnum liðsins að hann óskaði eftir því að yfirgefa liðið og samkvæmt heimasíðu liðsins virðist það ekki hafa runnið vel niður hjá stjórnarmönnum liðsins,“ segir í fyrrnefndri frétt á karfan.is.

Ferrara er 130 þúsund manna borga í Emilia-Romagna fylki á norður Ítalíu og stutt frá bæði Bologna og Feneyjum.

Hörður Axel Vilhjálmsson er í frábæru formi og sýndi það í úrslitakeppninni þar sem hann var með 15,3 stig og 6,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann byrjaði tímabilið ekki alltof vel en skipti um gír þegar Friðrik Ingi Rúnarsson tók við Keflavíkurliðinu.

Þetta er flott tækifæri fyir Hörður Axel að minna aðeins á sig auk þess að fá góðan undirbúning fyrir sumarið þar sem hann verður í stóru hlutverki með íslenska landsliðinu á Eurobasket.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×