Gagnrýni

Í hjúp þagnarinnar

Magnús Guðmundsson skrifar
Fyrir annasama en áhugasama lesendur getur verið sniðugt að ganga í góðan bókaklúbb og helst fleiri en einn til þess að láta færa sér ferskar og spennandi bókmenntir. Nýjasta viðbótin á Íslandi er Bókaklúbburinn Sólin, á vegum Benedikts bókaútgáfu, og þó svo nafn klúbbsins minni kannski fremur á prjónastofu eða dagvistun þá er óhætt að segja að Sólin rís með bravör.

Velkomin til Ameríku er önnur skáldsaga sænsku skáldkonunnar Lindu Boström Knausgård en áður hafði hún vakið athygli í heimalandinu fyrir ljóð og smásögur. Bakgrunnur höfundarins í knappari formum en skáldsögunni leynir sér ekki í Velkomin til Ameríku sem er hlaðin ljóðrænum og áhrifaríkum texta. Stuttar og meitlaðar setningar þar sem engu er ofaukið halda lesandanum við efnið sem er ekki síður forvitnilegt en form og stíll.

Í Velkomin til Ameríku segir sögu sína og fjölskyldu sinnar ung stúlka sem hefur tekið þá ákvörðun í kjölfar áfalls að hætta að tala. Ákveðið að vefja sig og verja sig með hjúp þagnarinnar með því að hafna tungumálinu og allri tjáningu eins og henni framast er unnt.

Ellen er ellefu ára stúlka sem býr ásamt móður sinni og bróður sínum á unglingsaldri í góðri íbúð í blokk sem er að mestu sögusvið bókarinnar. Fjölskyldufaðirinn er fallinn frá og Ellen er sannfærð um að hún beri ábyrgð á dauða hans. Faðirinn var sveitamaður sem flutti í borgina fyrir konuna sem hann elskaði leggst í þunglyndi og drykkjuskap en móðirin er björt, falleg og lífsglöð leikkona. Þessi persónusköpun á foreldrunum er eilítið klisjukennd en það kemur þó lítið að sök því Ellen er kjarni sögunnar. Vitund hennar fyllir þar hvern krók og kima og það er í raun fantavel skrifað hvernig hún fyllir í eyður lífs fjölskyldunnar og þráir um leið dauðann á barnslegan og einfaldan máta í trú sinni á almættið.

Velkomin til Ameríku fellur nefnilega aldrei í þá gildru að gerast vandamálasaga. Þetta er saga um manneskjur og þá fyrst og fremst þessa ungu stúlku sem hafnar tungumálinu og tjáningunni til þess að verjast sársauka heimsins. Sagan er uppfull af skemmtilegum hugmyndum og líflegu myndmáli eins og t.d. því hvernig Ellen hættir að geta varist líkamlegum ofvexti sem herjar á hana í þögninni, táknmyndum á borð við móðurina í hlutverki hinnar föllnu Frelsisstyttu, eilífa togstreitu ljóss og myrkurs, gleði og harms innan fjölskyldunnar og þannig mætti áfram telja.

Velkomin til Ameríku er ferskur andblær á skáldsagnasviðinu og enn ein staðfestingin á mikilvægi þess að íslenskir lesendur hafi aðgang að því sem er að gerast í bókmenntunum utan Íslands. Eins og var að búast er þýðing Þórdísar Gísladóttur í senn lipur og áferðarfalleg og það er vonandi að íslenskir lesendur fái að fylgjast með næstu verkum þessa forvitnilega höfundar. 

Niðurstaða: Falleg og manneskjuleg bók um tungumálið og þögnina, ljós og myrkur, líf og dauða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×