Körfubolti

Oscar heiðraði þrennubróður sinn | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robertson vill sjá Westbrook vera valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins.
Robertson vill sjá Westbrook vera valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins. vísir/getty
Russell Westbrook, leikstjórnandi Oklahoma City Thunder, var heiðraður fyrir leik liðsins gegn Denver Nuggets í lokaumferð NBA-deildarinnar í nótt.

Westbrook átti magnað tímabil en hann var með þrefalda tvennu að meðaltali í leik. Hann er aðeins annar leikmaðurinn í sögu NBA til afreka það.

Hinn leikmaðurinn í þessum fámenna félagsskap, Oscar Robertson, var mættur til Oklahoma í nótt til að heiðra Westbrook.

„Þegar Russell var á þessari vegferð fannst mér ég þurfa að vera hérna. Þetta sögulegt afrek hjá honum. Þið ættuð að vera stolt af honum,“ sagði Robertson við áhorfendur í Chesapeake Energy Arena.

„Það er aðeins eitt að lokum: M-V-P,“ bætti Robertson við og vísaði þar til þess að Westbrook ætti að vera valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins.

Robertson var með þrefalda tvennu að meðaltali í leik tímabilið 1961-62 þegar hann lék með Cincinnati Royals. Robertson var með 30,8 stig, 12,5 fráköst og 11,4 stoðsendingar að meðaltali í leik það tímabil.

Westbrook var með 31,6 stig, 10,7 fráköst og 10,4 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur. Hann var alls með 42 þrennur á tímabilinu, einni fleiri með Robertson náði fyrir 55 árum.

Westbrook spilaði aðeins fyrri hálfleikinn gegn Denver í nótt. Hann skoraði fimm stig, tók fimm fráköst og gaf átta stoðsendingar í 105-111 tapi. Oklahoma mætir Houston Rockets í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×