Tónlist

Rússar munu ekki taka þátt í Eurovision

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Julia Samoilova.
Julia Samoilova.
Stöð eitt, ríkissjónvarpið í Rússlandi, staðfesti í dag að Rússar muni ekki keppa í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, í ár.

Stöðin hefur formlega dregið til baka umsókn sína um að taka þátt í söngvakeppninni en ákvörðunin kemur í kjölfar þess að samningaviðræður milli Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, og úkraínsku leyniþjónustunnar fóru út um þúfur.

Í seinasta mánuði var greint frá því að keppanda Rússa í Eurovision, Juliu Samoilova, yrði meinað að koma til Úkraínu, þar sem keppnin fer fram, þar sem hún ferðaðist til Krím-skaga árið 2015 og braut þar með úkraínsk lög.

Úkraínska leyniþjónustan setti Samoilova því í þriggja ára bann frá því að ferðast til Úkraínu og má hún því ekki koma til Úkraínu fyrr en árið 2020.

EBU reyndi að finna lausn og buðu rússneska ríkissjónvarpinu að Samoilova myndi keppa í gegnum gervihnött. Á það féllust Rússar ekki og sögðu það heldur ekki koma til greina að senda annan söngvara. Þá hefur úkraínska leyniþjónustan ekki viljað aflétta ferðabanninu á Samoilova.

Rússar munu því ekki keppa í Eurovision í ár og þá mun rússneska ríkissjónvarpið ekki sýna frá keppninni.

Yfirlýsingu EBU vegna málsins má lesa hér en í henni er ákvörðun úkraínskra yfirvalda um að banna Samoilova að ferðast til Úkraínu fordæmd. Ákvörðunin sé til fallin að grafa undan keppninni og því að í henni komi allar þjóðirnar saman í vinalegri keppni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×