Erlent

Trump svaraði því ekki hvort hann gaf leyfi fyrir því að varpa „móður allra sprengja“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. vísir/getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, svaraði því ekki beint á blaðamannafundi í dag hvort að hann hefði formlega veitt leyfi fyrir því að varpa „móður allra sprengja,“ það er MOAB-sprengjunni, á jarðgangnasvæði ISIS í Austur-Afganistan.

Sprengjunni var varpað fyrr í kvöld en um er að ræða stærstu sprengju sem til er í vopnabúri Bandaríkjahers ef frá eru talin kjarnavopn. Er þetta í fyrsta skipti sem sprengjan er notuð í hernaði en hún var fyrst sprengd í tilraunaskyni árið 2003.

Á blaðamannafundinum í kvöld var Trump spurður að því hvort að hann hefði formlega veitt leyfi fyrir notkun sprengjunnar sagði forsetinn:

„Allir vita nákvæmlega hvað gerðist. Það sem ég geri er að ég veiti hernum mínum leyfi. Við erum með besta her í heimi og þeir hafa gert sitt eins og venjulega. Við höfum gefið þeim fullt leyfi og það er það sem þeir eru að gera og þess vegna hafa þeir náð tilætluðum árangri undanfarið.“

Bandaríkjaforseti er æðsti yfirmaður Bandaríkjahers en að því er fram kemur í frétt CNN var það herforinginn hersins í Afganistan, John Nicholson, sem tók ákvörðun um og gaf leyfi fyrir því að varpa sprengjunni. Var Hvíta húsið látið vita fyrir fram af því að sprengjan yrði notuð.

 

Trump hefur gefið herforingjum meira svigrúm til að taka sjálfstæðar ákvarðanir á ákveðnum átakasvæðum og segir forsetinn að það hafi skipt sköpum í baráttunni við ISIS undanfarið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×