Tónlist

Aldrei fór ég suður: „Það eina sem við förum fram á er að fólk skemmti sér fallega“

Búist er við því að íbúafjöldi Ísafjarðar tvöfaldist um helgina þegar tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður verður haldin þar í fjórtánda sinn. Um 2400 manns búa í bænum.

Undirbúningur stendur nú sem hæst fyrir hátíðina en hún setur jafnan mikinn svip á bæjarlífið þessa páskahelgi.

„Fólk er að flykkjast í bæinn og í dag eru hátíðahöldin víðs vegar, utandagskrárliðir, og svo hefst hérna á föstudagskvöld formleg dagskrá. Við finnum fyrir auknum fólksfjölda í bænum og aukinni stemningu,“ sagði Kristján Freyr rokkstjóri Aldrei fór ég suður í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Við höfum alltaf leyft okkur að blanda saman landsþekktum tónlistarmönnum auk fólks úr heimabyggð og svo eru ungar og efnilegar hljómsveitir með. Þannig að þetta er frábært prógramm.“

Kristján segir Aldrei fór ég suður vera fjölskylduhátíð og að allir séu tilbúnir að virða það.

„Við höfum bara sagt við fólk að við höfum opið fyrir alla, enginn aðgangseyrir og það eina sem við förum fram á er að fólk skemmti sér fallega.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira