Körfubolti

Þriggja stiga skotsýning hjá Ernu í undanúrslitaeinvíginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erna Hákonardóttir, til hægri, hefur þegar tekið á móti einum stórum bikar á tímabilinu. Hér fagnar hún með Irenu Sól Jónsdóttur.
Erna Hákonardóttir, til hægri, hefur þegar tekið á móti einum stórum bikar á tímabilinu. Hér fagnar hún með Irenu Sól Jónsdóttur. Vísir/Andri Marinó
Erna Hákonardóttir og félagar í Keflavíkurliðinu eru komnar í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn eftir sigur á Skallagrími í oddaleik í gærkvöldi.

Fyrirliðinn fór þá á kostum og skorað 20 stig sem er frábær frammistaða hjá leikmanni sem hafi skorað samtals 29 stig í fyrstu fjórum leikjunum.

Erna hitti úr 6 af 9 þriggja stiga skotum sínum og eina tveggja stiga karfan hennar var mögnuð flautukarfa í lok fyrri hálfleiks sem kom Keflavík átta stigum yfir.

Erna var búin að hitta úr 53 prósent þriggja stiga skotum sínum fyrir leikinn (9 af 17) og frábær nýting fyrir utan þriggja stiga línuna varð því enn glæsilegri eftir framgöngu hennar í gær.

Erna tók bara eitt skot og var stigalaus i leiknum á undan sem Keflavík tapaði í Borgarnesi. Keflavík vann alla þrjá leikina í einvíginu þar sem hún skoraði tíu stig eða meira.

Erna nýtti 58 prósent þriggja stiga skota sinna í einvíginu (15 af 26) og skoraði sex þristum meira en sú næsta sem var Tavelyn Tillman hjá Skallagrími með níu þrista.

Það sem meira er að næstbesta þriggja stiga skyttan í prósentum var Fanney Lind Thomas hjá Skallagrími með 29 prósent þriggja stiga nýtingu (7 af 24).

Þriggja stiga skotsýning Ernu var Keflavíkurliðinu afar mikilvæg en restin af liðinu skoraði samtals 17 þrista í þessu fimm leikja einvígi eða aðeins tveimur fleiri en Erna ein. Hinir leikmennirnir þurftu hinsvegar að taka 66 fleiri skot en Erna.



Þriggja stiga skotnýting hjá Keflavík í undanúrslitaeinvíginu:

Erna Hákonardóttir: 15 af 26 - 58 prósent

Restin af Keflavíkurliðinu: 17 af 92 - 18 prósent



Þriggja stiga skotnýting hjá Ernu í undanúrslitaeinvíginu:

Leikur 1 í Keflavík: 2 af 2 - 100 prósent

Leikur 2 í Borgarnesi: 3 af 7 - 43 prósent

Leikur 3 í Keflavík: 4 af 7 - 57 prósent

Leikur 4 í Borgarnesi: 0 af 1 - 0 prósent

Leikur 5 í Keflavík: 6 af 9 - 67 prósent




Fleiri fréttir

Sjá meira


×