Enski boltinn

Mourinho: Ef ég væri varnarmaður Manchester United þá væri ég mjög fúll út í þá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, ósáttur á hliðarlínunni í gær.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, ósáttur á hliðarlínunni í gær. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, sá sitt lið gera einn eitt jafntefli í gær í fyrri leik liðsins á móti belgíska liðinu Anderlecht í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Manchester United var 1-0 yfir í Belgíu þegar 85 mínútur voru liðnar af leiknum og hafði fengið fjölda færa til að bæta við mörkum. Anderlecht náði hinsvegar að jafna leikinn með sínu fyrsta skoti á mark United í leiknum.

„Ef ég væri varnarmaður Manchester United þá væri ég mjög fúll út í sóknarmenn liðsins. Þeir stóðu sig vel í vörninni en það voru mennirnir sem áttu að drepa leikinn sem gerðu það ekki,“ sagði Jose Mourinho við BBC eftir leikinn.

Manchester United liðið hefur aðeins skorað 46 mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hin liðin í toppbaráttunni, Chelsea, Tottenham, Liverpool, Manchester City og Arsenal, hafa öll skorað yfir 60 mörk.

„Þetta er sama vandamálið hjá okkur og vanalega. Við höfðum stjórnina, við fengum færin en við skorum bara ekki nógu mikið af mörkum,“ sagði Jose Mourinho við BBC.

„Á minni slöku ensku þá get ég ekki fundið annað orð en hroðvirknislegt (sloppy). Menn verða að spila af meiri alvöru,“ skaut Mourinho aftur á sóknarmenn sína.

„Þó að við myndum leggja saman frammistöðu tveggja eða þriggja framherja okkar þá væri það ekki að skila miklu. Marcus Rashford, Jesse Lingard, Zlatan Ibrahimovic og Anthony Martial voru allir svipaðir,“ sagði Mourinho.

Henrikh Mkhitaryan skoraði eina mark Manchester United í leiknum og það kom á 36. mínútu. United-liðið reyndi fimmtán önnur skot í leiknum án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×