Fótbolti

Rúnar Alex og félagar halda áfram að bruna upp töfluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson við öllu viðbúinn í marki Nordsjælland.
Rúnar Alex Rúnarsson við öllu viðbúinn í marki Nordsjælland. Vísir/Getty
Rúnar Alex Rúnarsson var í marki Nordsjælland þegar liðið vann 4-1 útisigur á SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta dag.

Nordsjælland hefur þar með unnið fimm af síðustu sex deildarleikjum sínum og er taplaust í síðustu sjö leikjum.

Nordsjælland tapaði fyrsta leiknum eftir að Rúnar Alex kom aftur inn í liðið en hefur ekki tapað síðan og náð í 17 stig af 21 mögulegu stigi frá því í lok febrúar.

Þetta byrjaði samt ekki alltof vel fyrir Nordsjælland-liðið sem lenti undir eftir aðeins átta mínútna leik. Þannig var staðan fram í byrjun seinni hálfleiks.

Emiliano Marcondes jafnaði metin á 47. mínútu og kom Nordsjælland síðan yfir með sínu öðru marki á 73. mínútu. Marcus Ingvartsen innsiglaði síðan sigurinn átta mínútum síðar og skoraði síðan sitt annað mark og fjórða mark Nordsjælland á annarri mínútu í uppbótartíma.

Rúnar Alex fékk fjögur skot á sig í leiknum og varði þrjú þeirra. Hann spilaði allar 90 mínúturnar í áttunda leiknum í röð.

Nordsjælland var í tíunda sæti deildarinnar eftir tap á móti Lyngby 17. febrúar síðastliðinn, sem var fyrsti leikur Rúnars Alex, en liðið hefur brunað upp töfluna síðan þá.

Nordsjælland komst upp fyrir Midtjylland og í þriðja sæti með sigrinum í dag en Midtjylland á reyndar leik inni. FC Kaupmannahöfn er í efsta sæti deildarinnar og nú með sextán stigum meira en Nordsjælland-liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×