Enski boltinn

Spurs getur sett pressu á Chelsea með sjöunda sigrinum í röð | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tottenham getur sett pressu á topplið Chelsea með því að vinna Bournemouth á White Hart Lane í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Spurs er sjö stigum á eftir Chelsea sem mætir Manchester United á Old Trafford á morgun. Tottenham hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og unnið sex leiki í röð.

Sex aðrir leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City sækja Watford heim og þurfa nauðsynlega á þremur stigum að halda.

Eftir slakt gengi í undanförnum leikjum er Swansea komið niður í átjánda og þriðja neðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Hull sem er í 17. sæti. Hull sækir Stoke City heim í dag.

Everton getur komist upp í 5. sætið með sigri á Burnley á Goodison Park. Everton verður að teljast líklegt til afreka en liðið hefur unnið sjö heimaleiki í röð. Aftur á móti hefur Burnley ekki unnið útileik í vetur.

Leicester City, sem hefur tapað tveimur leikjum í röð, fer á Selhurst Park og mætir þar Crystal Palace sem vann frábæran sigur á Arsenal í síðustu umferð.

Sunderland, sem er rótfast við botn deildarinnar, fær West Ham United í heimsókn. Sunderland er 10 stigum frá öruggu sæti.

Í síðdegisleiknum mætir Southampton Manchester City. Lærisveinar Peps Guardiola geta komist upp fyrir Liverpool og í 3. sæti deildarinnar með sigri í dag.

Leikir dagsins:

11:30 Tottenham - Bournemouth (beint á Stöð 2 Sport HD)

14:00 Watford - Swansea (beint á Sport HD)

14:00 Stoke - Hull (frumsýndur kl. 22:30 á Sport 2 HD)

14:00 Everton - Burnley (frumsýndur kl. 17:30 á Sport 2 HD)

14:00 Crystal Palace - Leicester (frumsýndur kl. 19:10 á Sport 2 HD)

14:00 Sunderland - West Ham (frumsýndur kl. frumsýndur kl. 20:50 á Sport 2 HD)

16:30 Southampton - Man City (beint á Sport HD)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×