Innlent

Segir viðræður án innihalds

Svavar Hávarðsson skrifar
Málið snýst um tæp 100 störf í fiskvinnslu á Akranesi sem munu tapast.
Málið snýst um tæp 100 störf í fiskvinnslu á Akranesi sem munu tapast. vísir/eyþór
Hugur fylgir ekki máli hjá forsvarsmönnum HB Granda í viðræðum fyrirtækisins við Akranesbæ um leiðir til að halda starfsemi áfram í bænum – um „algjörar sýndarviðræður“ er að ræða,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

„Það er ekki hægt að lesa neitt annað út úr viðtölum við forstjórann og skrif fyrirtækisins að það sé fyrir löngu búið að taka þessa ákvörðun. Því er ekkert sem stendur eftir annað, en að ekkert sé raunverulega að baki þessum viðræðum. Ég óttast það mjög,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur vísar hér til viðtals við nafna sinn Vilhjálmsson, forstjóra HB Granda, í sjávarútvegstímaritinu Ægi. Þar segir forstjóri HB Granda að hagræðingin sem felst í því að hætta vinnslu á Akranesi sé svo ótvíræð að ekki sé hægt að horfa fram hjá henni. Þess vegna verði vart hjá áformum um að hætta vinnslunni og færa hana til Reykjavíkur komist. Hann slær þó þann varnagla að niðurstaða viðræðna fyrirtækisins við Akranesbæ og Faxaflóahafnir verði að liggja fyrir áður en endanlega verði tekin ákvörðun en þegar allt komi til alls sé það samfélagsleg skylda fyrirtækisins að reka fyrirtækið með hagnaði og gefa þannig til baka til samfélagsins.

Frá sjónarhóli Vilhjálms Birgissonar er þó ljóst að 99,9% líkur séu á því að viðræðurnar við bæjaryfirvöld séu yfirvarp – ákvörðun um lokun á Akranesi hafi þegar verið tekin, segir Vilhjálmur vegna málsins.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness
Hann rifjar það upp að árið 2002 var 167 þúsundum tonna landað á Akranesi og 350 manns unnu hjá fyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni, sem á þeim tíma var stærsti launagreiðandi í fjórðungnum.

Í viðtalinu í Ægi, sem og í viðtali við Viðskiptablaðið á miðvikudaginn var, kemur fram, eins og þegar málið kom upp í fyrstu, að skip HB Granda hafa landað afla sínum í Reykjavík og þúsundir tonna verið flutt landleiðina til Akraness til vinnslu, og síðan til baka aftur til útflutnings í gámum eða í flug í Keflavík. Þetta fyrirkomulag hafi borið sig fram til þessa þótt óhagkvæmt sé en nú blasi töluvert tap við starfseminni í óbreyttri mynd.

„Ég sé í sjálfu sér ekki hvernig það á að geta orðið breyting á þessum áformum eða hvernig menn ætla að geta afstýrt þessum áformum núna. Menn geta sett upp framtíðarsýn með ýmsum hætti en þetta blasir við okkur núna og ég sé ekki nein úrræði sem gætu komið í veg fyrir þessi áform,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson í viðtali við Viðskiptablaðið, en yfirstandandi viðræður snúa að uppbyggingu hafnarmannvirkja á Akranesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×