Sport

Fagnar krókódíllinn nýjum samningi með sigri í kvöld?

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Jacare í vigtuninni í gær.
Jacare í vigtuninni í gær. Visir/Getty
UFC verður með ansi skemmtilegt bardagakvöld í Kansas í kvöld. Fjórir áhugaverðir bardagar verða á dagskrá og stefnir allt í góða páskabardaga.

Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Demetrious Johnson og Wilson Reis í titilbardaga í fluguvigtinni. Johnson er ríkjandi fluguvigtarmeistari UFC og verður sigur í kvöld ansi þýðingarmikill fyrir hann. Ef Johnson vinnur verður það tíunda titilvörn hans í UFC og jafnar hann þar með met Anderson Silva yfir flestar titilvarnir í sögu UFC.

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þær Rose Namajunas og Michelle ‘The karate hottie’ Waterson. Þetta er mikilvægur bardagi í strávigtinni en sigurvegarinn gæti fengið titilbardaga.

UFC hefur lagt mikið í að kynna Waterson að undanförnu og skrifaði hún nýlega undir samning við umboðsmann Rondu Rousey. Haldi hún áfram á sigurbraut gæti hún orðið stór stjarna. Hún fær þó erfiðan bardaga í kvöld enda er Namajunas sigurstranglegri að mati veðbanka.

Í einum áhugaverðasta bardaga kvöldsins mætast þeir Ronaldo ‘Jacare’ Souza og Robert Whittaker. Jacare (krókódíll á portúgölsku) fékk nýjan átta bardaga samning í gær og ætlar væntanlega að fagna því með sigri í kvöld. Jacare er einn allra besti gólfglímumaður sögunnar og hefur unnið 17 bardaga með uppgjafartaki. Robert Whittaker hefur unnið sex bardaga í röð í UFC og verður áhugavert að sjá hvort hann nái að standast þessa erfiðu prófraun.

Bardagakvöldið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld. Bein útsending hefst á miðnætti en fjórir bardagar verða á dagskrá.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×