Viðskipti innlent

Skuldir heimila og fyrirtækja aukast

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Raunskuldir heimila og fyrirtækja jukust á árinu 2016 þótt sparnaður hafi vaxið á síðustu árum. Fram kemur í tilmælum fjármálastöðugleikaráðs til Fjármálaeftirlitsins að bæði heimili og fyrirtæki stofni um þessar mundir til aukinna skulda þótt skuldirnar vaxi hægar en landsframleiðslan.

Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Ráðið er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfir viðbúnað opinberra aðila við fjármálakreppu.

Fjármálastöðugleikaráð kom saman fimmtudaginn 6. apríl síðastliðinn í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Fjallað var um áhættur í fjármálakerfinu og horfur í þjóðarbúskapnum.

Ákveðið var að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að halda svokölluðum „sveiflujöfnunarauka“ á innlend útlán bankanna óbreyttum við 1,25 prósent.

Sveiflujöfnunarauki er þjóðhagsvarúðartæki. Um er að ræða eiginfjárauka eða viðbótar eigið fé sem bankarnir þurfa að eiga og geta gengið á ef hagkerfið verður fyrir áföllum og það verða útlánatöp í bankakerfinu. Þetta er eiginlegur varasjóður eða viðbótarfé til að jafna sveiflur og þess vegna kallast þetta sveiflujöfnunarauki. 

Í bréfi fjármálastöðugleikaráðs til FME með tilmælum um sveiflujöfnunarauka er líka fjallað um skuldaþróun heimila og fyrirtækja en þar segir: „Raunskuldir heimila og fyrirtækja jukust lítillega á árinu 2016 en skuldir í hlutfalli við verga landsframleiðslu lækkuðu. (...) Séu verðtryggðar skuldir settar á fast verðlag, og þær erlendu settar á fast gengi, mælist skuldavöxtur í heild 4,3% á árinu 2016. Því er ljóst að heimili og fyrirtæki stofna um þessar mundir til aukinna skulda, þó svo að á þennan mælikvarða vaxi skuldir hægar en landsframleiðsla.“

Í bréfi fjármálastöðugleikaráðs kemur hins vegar fram að veðrými heimila og fyrirtækja hafi batnað vegna hækkandi eignaverðs og skuldaleiðréttinga. Skuldabyrði heimila og fyrirtækja hafi einnig verið lág undanfarin misseri. Aðstæður til aukinnar skuldsetningar séu því fyrir hendi hjá bæði heimilum og fyrirtækjum.

Þótt fjármálastöðugleikaráð orði þetta með þessum hætti í bréfi sínu má alls ekki skilja þennan hluta bréfsins á þann veg að ráðið hvetji til aukinnar skuldsetningar. Aðeins er verið að benda á að svigrúmið sé til staðar vegna aukins veðrýmis. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×