Enski boltinn

Man Utd hefur ekki unnið Chelsea í tæp fimm ár | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stórleikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni fer fram á Old Trafford í dag þar sem Manchester United tekur á móti toppliði Chelsea. Leikurinn hefst klukkan 15:00.

Þetta er í þriðja sinn sem þessi lið mætast á tímabilinu en Chelsea hafði betur í fyrstu tvö skiptin.

Chelsea vann deildarleik liðanna 23. október í fyrra 4-0. Pedro, Gary Cahill, Eden Hazard og N'Golo Kanté skoruðu mörk Chelsea.

Liðin mættust svo á Stamford Bridge í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar 13. mars síðastliðinn. Þar skildi mark Kantés liðin að en United lék manni færri síðustu 55 mínútur leiksins eftir að Ander Herrera fékk að líta rauða spjaldið.

Chelsea hefur ekki tapað fyrir United í 12 leikjum í röð. Síðasti sigur United á Chelsea kom í október 2012.

Leikurinn er sérstakur fyrir José Mourinho, knattspyrnustjóra United, sem gerði Chelsea þrisvar sinnum að Englandsmeisturum á sínum tíma. Hann var svo rekinn frá félaginu í desember 2015.

Í hinum leik dagsins mætast West Brom og Liverpool á The Hawthornes. Leikurinn hefst klukkan 12:30.

Liverpool endurheimtir 3. sætið með sigri eða jafntefli en West Brom verður áfram í 8. sætinu sama hvernig leikurinn fer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×