Erlent

Sérfræðingar segja stefnu Trump einungis til þess fallna að herða afstöðu Norður-Kóreu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump reynir nú á að sýna Kim Jong-un herstyrk Bandaríkjanna og fá hann til að hætta við eldflaugavopnaþróun sína.
Donald Trump reynir nú á að sýna Kim Jong-un herstyrk Bandaríkjanna og fá hann til að hætta við eldflaugavopnaþróun sína. Vísir/EPA
Bandarísk stjórnvöld, með Donald Trump í broddi fylkingar, eru að gera alvarleg mistök með því að senda herskip að Kóreuflóa og þannig sýna Norður-Kóreumönnum tennurnar, ef marka má sérfræðinga í málefnum Norður-Kóreu. Guardian greinir frá. 

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur til dæmis ítrekað skrifað á Twitter, að Norður-Kóreumenn „séu að baka sér vandræði,“ með þróun sinni á eldflaugavopnatækni. En sérfræðingar segja að hervald muni ekki fá norður-kóresk yfirvöld til þess að skipta um skoðun, þeirra á meðal er John Delury, frá Yonsei háskólanum í Seoul.

Það er miklum vandkvæðum bundið að ætla að nota herstyrk til þess að hóta Norður-Kóreumönnum, því þeir styrkjast bara í trú sinni. Ef þú ætlar að fá þá til að hætta að þróa eldflaugar, hjálpa hótanir ekki.

Stuðningsmenn Trump segja að sú aðferð hans, að sýna herstyrk Bandaríkjanna, eigi eftir að hræða norður-kóreska einræðisherrann og sannfæra forseta Kína, Xi Jinping, um að þrýsta á Norður-Kóreumenn að hætta við eldflaugavopnaþróun sína.

Þá segir Leonid Petrov, sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu, frá Australian National háskólanum, að í ljósi misheppnaðra eldflaugaskota norður-kóreskra yfirvalda, sé ljóst að stefna ríkisstjórnar Trump sé ekki að virka.

Skilaboðin frá Norður-Kóreu eru þau að þrátt fyrir herstyrk Bandaríkjanna, mun Norður-Kórea ekki falla frá eldflaugavopnaþróun sinni.

Hann segir jafnframt að það muni fyrst reyna á hinn nýkjörna forseta Bandaríkjanna, þegar ákveða þarf hvernig skal bregðast við tilraunasprengingu Norður-Kóreumanna á kjarnorkusprengju.

Þá muni koma í ljós hvort Bandaríkin muni hætta á að stefna öryggi Suður-Kóreu í hættu með því að sýna tennurnar, eða sitji aðgerðarlaus og sýni þar með fram á eigin veikleika. Vandamálið sé, að Kim Jong-un hefur engu að tapa. 


Tengdar fréttir

Kínverjar uggandi yfir ástandinu á Kóreuskaga

Utanríkisráðherra Kína segir að átök gætu brotist út hvað úr hverju. Kínverjar skora á alla aðila að auka spennuna ekki. Bandaríkin sigla upp að Kóreuskaga og hafa sýnt mátt sinn undanfarið. Átök gætu leitt til flóttamannstraums.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×