Enski boltinn

Berbatov var nálægt því að fara til Sunderland

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berbatov varð tvívegis enskur meistari með Manchester United.
Berbatov varð tvívegis enskur meistari með Manchester United. vísir/getty
Dimitar Berbatov segist hafa átt í viðræðum við enska úrvalsdeildarliðið Sunderland í janúarglugganum.

Búlgarski framherjinn hefur verið án félags síðan hann yfirgaf PAOK frá Grikklandi síðasta sumar. Hann var þó nokkuð nálægt því að ganga í raðir botnliðs ensku úrvalsdeildarinnar í janúarglugganum.

„Ég vil halda áfram að spila. Ég ræddi við nokkra þjálfara hjá Sunderland en á endanum gerðist ekkert,“ sagði Berbatov sem er ekki tilbúinn að leggja skóna á hilluna strax.

„Mig langar að spila aðeins lengur. Einn leik í viðbót, eitt ár í viðbót. Bara njóta þess að vera með liðsfélögunum og spila fyrir áhorfendurna.“

Berbatov lék í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2006-14 og vill ólmur snúa aftur þangað.

„Allir leikmenn vilja spila í ensku úrvalsdeildinni. Þegar þú hefur spilað þar viltu gera það aftur. Við sjáum til hvað gerist,“ sagði Berbatov sem skoraði 94 mörk í 229 leikjum í ensku úrvalsdeildinni fyrir Tottenham, Manchester United og Fulham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×