Enski boltinn

Kærkominn sigur Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sánchez fagnar marki sínu.
Sánchez fagnar marki sínu. vísir/getty
Arsenal lyfti sér upp í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 1-2 útisigri á Middlesbrough á Riverside í kvöld.

Arsenal er nú sjö stigum frá 4. sætinu og á auk þess leik til góða á liðin í kring.

Middlesbrough er hins vegar áfram í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar, sex stigum frá öruggu sæti.

Arsene Wenger gerði sex breytingar á byrjunarliði Arsenal frá 3-0 tapinu fyrir Crystal Palace fyrir viku og fór í þriggja manna vörn.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð bragðdaufur þangað til Alexis Sánchez kom gestunum yfir með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu.

Staðan var 0-1 í hálfleik en heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og jöfnuðu á 50. mínútu. Álvaro Negredo skoraði þá af stuttu færi eftir magnaða sendingu Stewarts Downing.

Á 61. mínútu fékk Daniel Ayala dauðafæri en Petr Cech varði.

Eftir það hertu Arsenal-menn tökin og á 71. mínútu skoraði Mesut Özil sigurmarkið eftir undirbúning Sánchez og Aarons Ramsey. Lokatölur 1-2, Arsenal í vil.

Hér að neðan má lesa beina lýsingu frá gangi mála í leiknum.

Leik lokið: Taylor flautar til leiksloka! Kærkominn sigur hjá Skyttunum sem eru komnar upp í 6. sæti deildarinnar.

90+3. mín: Oxlade-Chamberlain aftur í færi en skýtur í hliðarnetið.

90+2. mín: Oxlade-Chamberlain í góðu færi en Guzan ver. Skotvinkilinn þröngur.

90. mín: Francis Coquelin og Héctor Bellerín koma inn fyrir Sánchez og Özil.

79. mín: Rudy Gestede kemur inn fyrir De Roon.

71. mín: ÖZIL!!! Sánchez sendir inn á teiginn, Ramsey kassar boltann fyrir Özil sem setur hann í nærhornið og kemur Arsenal yfir!

68. mín: Adama Traoé kemur inn fyrir Ramírez.

63. mín: Özil kominn einn í gegn en Guzan bjargar með góðu úthlaupi.

61. mín: DAUÐAFÆRI! Downing með aukaspyrnu á Friend sem skallar hann fyrir á Daniel Ayala sem kastar sér fram og skallar beint á Cech!

55. mín: Friend skeiðar upp vinstri kantinn og sendir fyrir, Nacho Monreal missir af boltanum sem berst á Downing sem skýtur yfir. Allt annað að sjá heimamenn hér í seinni hálfleiknum.

50. mín: MARK!!! Stewart Downing með glæsilega sendingu inn á teiginn og Negredo kemur boltanum í markið! Virkilega laglegt mark. Negredo kominn með átta mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Seinni hálfleikur hafinn: Taylor flautar seinni hálfleikinn á! Engar breytingar á liðunum.

Fyrri hálfleik lokið: Taylor flautar til hálfleiks. Glæsimark Sánchez skilur liðin að.

42. mín: SÁNCHEZ!!! Sílemaðurinn skorar með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu! Setur boltann yfir vegginn og í hornið. Guzan er steinrunninn á línunni.

37. mín: Ramsey fer nokkuð harkalega í Leadbitter en sleppur við spjald.

28. mín: Fín sókn hjá Arsenal. Oxlade-Chamberlain fer illa með Friend og sendir fyrir fjærstöng, Giroud skallar boltann á Alexis Sánchez sem á skot sem Antonio Barragán skallar frá.

23. mín: Ramírez skorar með skalla en markið er réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

17. mín: Fabio hefur lokið leik. George Friend kemur inn fyrir Brasilíumanninn.

10. mín: Þetta fer ágætlega af stað. Kraftur í heimamönnum. Oxlade-Chamberlain og Grant Leadbitter báðir komnir með gult spjald.

Leikur hafinn: Anthony Taylor flautar til leiks!

Fyrir leik:

Steve Agnew, stjóri Boro, gerir fimm breytingar á byrjunarliðinu. Brad Guzan, Fabio, Marten de Roon, Gastón Ramírez og Álvaro Negredo koma allir inn í byrjunarliðið.

Fyrir leik:

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, gerir sex breytingar á byrjunarliðinu frá 3-0 tapinu fyrir Crystal Palace fyrir viku og breytir yfir í 3-5-2. Petr Cech, Laurent Koscielny, Rob Holding, Alex Oxlade-Chamberlain, Aaron Ramsey og Olivier Giroud koma allir inn í byrjunarliðið.

Fyrir leik:

Góða kvöldið og velkomin í beina lýsingu frá leik Middlesbrough og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×