Innlent

Biggi hittir leiðtoga ahmadiyya-múslima

Jæja, ertu orðinn múslimi? spyr faðir minn með sushi-bita í munninum. Hann er staddur í fermingarveislu sonar míns og við höfum ekki hist síðan ég kom aftur heim frá London þar sem ég spjallaði við „hans heilagleika“.

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Birgir Örn, kalífinn Mirza Masroor Ahmad, trúarleiðtogi ahmadiyya-múslima og Mansoor Ahmad Malik, Imam og landsforstöðumaður Ahmadiyya múslimasamfélagsins á Íslandi. Vísir
„Jæja, ertu orðinn múslimi?“ spyr faðir minn með sushi-bita í munninum. Hann er staddur í fermingarveislu sonar míns og við höfum ekki hist síðan ég kom aftur heim frá London þar sem ég spjallaði við „hans heilagleika“, kalífann Mirza Masroor Ahmad, trúarleiðtoga ahmadiyya-múslima. Ég þykist greina alvöru ótta á bak við spurningu föður míns. Eins og ég sé einhvern veginn að svíkja lit með því einu að forvitnast um hvernig heimurinn sé fyrir utan fiskabúrið okkar. Eins og ég hefði mætt í KR-peysu á þorrablót Fylkis eða sagt honum að The Rolling Stones hafi alltaf verið betri en Bítlarnir.

Pabbi hefur lengi lyft brúnum yfir áhuga okkar hjóna á múslimum á Íslandi. Við höfum margoft rætt þessi mál við kvöldverðarborðið og hann tekur alltaf kurteislega fram að hann hafi ekkert á móti „þessu fólki“. Hann var samt verulega á móti því að Félag múslima á Íslandi fengi að byggja mosku í Sogamýri. Hann tók það þó alltaf skýrt fram að það væri nú aðeins vegna þess að honum fyndist að þarna ætti að vera óhreyfður grænn reitur í Reykjavík. Hann hefur þó ekki enn kvartað yfir þeim byggingum sem nú er verið að reisa þar fyrir gamalmenni. Ekkert frekar en Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, Framsóknarflokkurinn eða þau tæplega 2.000 manns sem notuðu sömu rök þegar þau mótmæltu lóðaúthlutun Reykjavíkurborgar á sínum tíma á Facebook.

Hálftíma síðar mætir Mansoor Malik, trúboði ahmadyyia-múslima á Íslandi, og eiginkona hans, Mahdia, í veisluna. Pabbi er sá fyrsti til að rétta þeim báðum hönd sína og bjóða þau velkomin. Hann sýnir þeim kurteisi og virðingu á þann hátt sem honum hefur verið kenndur. Ég gleymdi alveg að segja honum að það er ekki hefð fyrir því á meðal ahmadyyia-kvenna að taka í spaðann á karlmönnum. Mahdia tekur þó kurteislega í höndina á honum á móti, eitthvað sem ég veit að henni þykir jafn undarlegt að gera og okkur þykir að telja kinnakossa þegar við heilsum Frökkum á heimavelli.

Mizra Masroor Ahmad, trúarleiðtogi Ahmadyyia-múslima og fimmti kalífinn.

Friðarboðskapur með upplýsingu að vopni

Akkúrat viku áður var ég staddur í höfuðstöðvum ahmadiyya-múslima í London. Þær eru við elstu Fazl-moskuna í Wandsworth-hverfi borgarinnar sem var byggð 1926. Þá var þessi sértrúarsöfnuður nokkuð nýr af nálinni enda stofnaður í lok 19. aldar í Punjab (nú í Pakistan, þá í breska Indlandi) eftir að trúarleiðtoginn Mirza Ghulam Ahmad sagðist vera Mahdi (svipar til hins kristna messíasar) sem spáð var að myndi endurvekja og endurmóta íslam. Eiginlegur messías sem spáð var að myndi koma og ýta á reset-takkann hvað boðskap trúarinnar varðar. 

Boðskapur stofnandans var að breiða út boðskap guðs með upplýsingu og frið að vopni í stað stríðsyfirlýsinga. Sú stefna ahmaddiyya-múslima hefur nú verið við lýði í heila öld og er núverandi kalífinn (sá fimmti í röðinni) yfirleitt fyrstur leiðtoga múslima í heiminum til þess að fordæma hryðjuverk sem unnin eru í nafni íslams. Hann er einnig blóðskyldur stofnanda safnaðarins eins og þrír forverar hans hafa einnig verið. Söfnuðurinn hefur verið gagnrýndur fyrir að halda uppi eins konar konungdæmi þar sem völdin haldast sífellt innan sömu fjölskyldu. Frá upphafi hafa ahmadiyya-múslimar verið ofsóttir á meðal strangtrúaðra múslima sem greinir á um hvort Mahdi sé kominn eður ei. Í Pakistan er ástandið það slæmt að ahmadiyya-múslimar eru bannaðir með lögum og pyntaðir ef þeir nást.

Ahmadiyya-múslimar hafa verið með trúboð á Íslandi í nokkur ár og voru sýnilegir í Kolaportinu þar til í fyrra. Núna einbeitir Mansoor Malik sér að því að gefa heimilislausu fólki að borða vikulega, sinna þeim hópi Íslendinga sem hafa tekið trú og að halda árlega friðarráðstefnu þar sem trúarleiðtogum annarra trúarbragða eða stjórnmálafólki er boðið að koma og halda ræðu í nafni friðar. Annað friðarþing ahmadiyya-múslima á Íslandi verður haldið í lok aprílmánaðar á hóteli í miðbænum.

Frá þriggja daga ráðstefnu ahmadyyia-múslima í Englandi síðasta sumar sem Birgir Örn sótti ásamt fleiri Íslendingum.

Takmarkaður tími

Þegar ég sit fyrir utan skrifstofu kalífans er mér tjáð að ég fái því miður ekki 20 mínútur eins og mér hafði verið lofað, heldur aðeins 10-15 mínútur í návist hans heilagleika. Ég hef því aðeins tíma til þess að spyrja hnitmiðaðra spurninga en hafði vonast eftir góðu viðtali þar sem við fengjum að sjá hvers konar maður væri undir skrautlega höfuðfatinu. Ég brýni hugsanir mínar, stend upp og geng af stað inn. Tveir ungir menn koma til mín og tilkynna mér að þeir muni taka upp viðtalið á myndband fyrir öryggissakir.

Ég er leiddur í gegnum tvö lítil herbergi áður en ég kem inn á sjálfa skrifstofuna. Í báðum sitja um fjórir menn sem skoða mig frá hvirfli til ilja og skrá eitthvað hjá sér. Þeir brosa flestir á móti þegar ég heilsa þeim að þeirra eigin sið. Einhverjir eru án efa öryggisverðir en á þeim er hvergi nein vopn að sjá þótt sumir líti út fyrir að geta tuskað mig til ef til þess kæmi.

Mér er vísað til sætis við skrifborð kalífans þar sem hann situr. Mirza Masroor Ahmad stendur ekki upp til þess að taka í höndina á mér. Hann er með sitt hefðbundna höfuðfat sem er ólíkt þeim höfuðfatnaði sem fylgjendur hans bera. Minnir þó nokkuð á kórónu. Hann er mjög snyrtilegur til fara og hreint út sagt glæsilegur.

Borðið hans er þakið bókum, pappírum og möppum. Það er greinilegt að hann hefur nóg að gera. Ég heilsa honum að múslimasið og hann heilsar á móti. Svo situr hann í þögn í nokkrar sekúndur, pírir augun og starir á mig.

Íslenski hópurinn sem fór á ráðstefnuna ásamt fjörutíu þúsund múslimum í Englandi síðastliðið sumar. Einn þeirra vildi ekki þekkjast á myndinni.

Enn takmarkaðri tími

„Ég hef nú séð þig einhvers staðar áður, er það ekki?“ spyr hann. „Þú ert með kunnuglegt andlit.“

Jú, reyndar. Við hittumst stuttlega í fyrra og svo sat ég blaðamannafundinn sem þú hélst á friðarráðstefnunni hér í London fyrir tveimur dögum.

„Ah, ok. Hvað var það sem þú vildir tala um?“

Já, þar sem við höfum afar lítinn tíma, aðeins 15 mínútur þá…

„15 mínútur? Nei, ég er hræddur um að þú hafir fengið rangar upplýsingar. Við höfum aðeins um 8 mínútur. En höldum áfram, hvað get ég gert fyrir þig?“

Ööö … mig langaði nú mest til þess að ræða við þig um hluti sem íslam er gjarnan gagnrýnt fyrir í mínu landi. Þar sem við höfum svona lítinn tíma verð ég að stökkva beint í stóru spurningarnar ef þér er sama?

Auðvitað,“ segir kalífinn og sveiflar hendinni til merkis um að ég eigi að halda áfram.



Um jihad

Jihad er orð úr Kóraninum sem Íslendingar óttast og það hefur verið notað af múslimum í áraraðir til þess að réttlæta hryðjuverk og morð á saklausu fólki. Þú sjálfur hefur fordæmt róttækar túlkanir Kóransins og hryðjuverk. Hver er þá eiginlega þinn skilningur á orðinu jihad?

„Jihad þýðir upphaflega að berjast fyrir því að komast af. Það þýðir ekki að drepa. Það er annað orð notað yfir það í Kóraninum, liaqtal, sem er líka notað yfir stríð. Til þess að viðhalda friði og til þess að sigrast á hinu óréttláta þarf stundum að nota afl. Þess vegna hefur það gerst að orðið jihad hefur verið notað yfir slíkt. Við trúum því að hinn heilagi spámaður íslams hafi aldrei hrint af stað stríði. Því var neytt upp á þá og þeir neyddust til þess að svara. Það var því kallað jihad í Kóraninum. Eftir að stríðinu lauk og hinn heilagi spámaður sneri aftur til Medínu sagði hann að stríðið hefði verið minna jihad en nú biði hans stærra jihad sem væri að kenna heiminum boðskap íslams með Kóraninum. Það er hið stærra jihad. Erfiðið og baráttan fyrir því að kenna hinn friðsama boðskap íslams. Það er hið sanna jihad.“

Kalífinn hallar sér aftur í stólnum sínum um leið og hann þagnar. Hann horfir á mig og um það leyti sem ég er að móta næstu spurningu heldur hann áfram að tala:

„Stofnandi ahmadiyya-samfélagsins sagði að hann væri sú persóna sem hinn heilagi spámaður íslams spáði að myndi koma og kenna hinn sanna boðskap íslams. Því var spáð að múslimarnir myndu hafa gleymt hver hinn sanni boðskapur íslams væri. Hann sagðist því ætla að endurlífga hinn sanna boðskap. Hann sagði að aldrei væri hægt að nota neitt afl né stríðstól í því skyni að kenna hinn sanna boðskap íslams. Fyrir honum var helsta ógn íslams áróður í gegnum fjölmiðla, í gegnum predikanir eða trúboðastarf. Þar af leiðandi væri réttast að notast við þau sömu vopn og væri verið að nota þá gegn íslam. Þetta er ástæðan fyrir því að hann skrifaði 86 bækur. Til þess að hrekja ásakanir þeirra sem réðust á íslam. Svo sagði hann að það væri hið sanna jihad. Hann sagði að ef við yrðum sigraðir þá værum við ekki að heyja hið sanna jihad, því guð segir í Kóraninum að ef jihad er rétt háð, þá munum við sigra. Þess vegna segjum við í dag að þau öfl sem nota ofbeldi í nafni íslams séu í raun að tapa baráttunni. Með aðstoð predikana, skrifa og fjölmiðla erum við að sigra. Á hverju ári bætast hundruð þúsunda manna í okkar samfélag. Fyrir okkur er það sigur, því það er mikilvægast af öllu núna að vinna hjörtu manna. Það er hið sanna jihad.“

Þannig að ...

„Jihad þýðir líka að gera persónulegar umbætur innra með þér. Ef hið innra sjálf er ekki hreint og óhlutdrægt, hvernig getur sá hinn sami þá sagt að hann sé sannur múslimi?“

Múslimskar stelpur minnast þeirra sem létu lífið í hryðjuverkaárásinni á Westminster-brúnni í mars.Vísir/EPA

Kynjaskipting ahmadiyya-múslima

Í fyrra heimsótti ég Jalsa Salana sem er árlegt trúarþing haldið á stærðarinnar akri nokkra kílómetra fyrir utan bæinn Farnborough á Englandi. Þangað mættu 40 þúsund karlar og konur til þess að hlýða á predikanir, fyrirlestra, biðja og borða saman í þrjá daga. Þar talaði kalífinn mikið um jafnrétti kynjanna og það sló mig eiginlega hversu mikil virðing konum á svæðinu var sýnd. 

Að sið múslima var svæðið kynjaskipt. En það var ekki þannig að konum væri meinaður aðgangur að karlasvæðinu. Akkúrat öfugt. Þær máttu koma inn á karlasvæðið hvenær sem þær vildu en körlum var meinaður aðgangur að kvennasvæðinu. Þegar konur sáust inni á karlasvæðinu var passað upp á að þær hefðu alltaf svæði til þess að ganga á. Ef þær þurftu að ganga stíg sem var troðinn opnaðist mannþröngin eins og Rauðahafið fyrir Móse til þess að hleypa þeim í gegn. Eiginkona mín, sem var þá með í för, sagði mér að hinum megin væri töluvert léttari andi og þar væri mikið hlegið og gert grín að körlunum. Hún útskýrði líka fyrir mér helstu ástæðu þess að konur og karlar biðja í sitt hvoru lagi. Hafi einhver séð múslima biðja þá er ástæðan í raun mjög rökrétt. Karlar og konur fara niður á hné, setja höfuð að jörðu og afturendann upp í loftið. Það kann víst ekki góðri lukku að stýra, vilji maður hafa hugann við almættið, að hafa föngulegan afturenda af hinu kyninu í andlitinu á sér. Svo einfalt er það.

Ahmadiyya-konur eru líka nokkuð áberandi í fjölmiðlum í Bretlandi. Það voru til dæmis þær sem söfnuðust saman á Westminster-brúnni um daginn og mótmæltu hryðjuverkinu sem þar var framið í síðasta mánuði með því að haldast í hendur yfir brúna.

Það er þó ennþá margt sem snýr að kynjunum í íslam sem mörgum finnst gamaldags. Kalífinn er í dag 66 ára gamall og alinn upp á öðrum tíma og í öðrum menningarheimi. Þar voru, og eru, oft skýr mörk á milli verkefna sem eiga að henta hvoru kyni fyrir sig. Það kom mér því nokkuð í opna skjöldu hversu mikla áherslu hann lagði á þetta mál á þinginu. Getur verið að þessi endurmótaða útgáfa af íslam hafi aukið rými fyrir þá jafnréttisþróun sem er að verða í heiminum í dag? Er slíkt hægt í menningu þar sem hjónabönd eru skipulögð af fjölskyldum?

Ég lít á klukkuna. Viðtalið hefur þegar staðið yfir í tæpar 8 mínútur. Ég ákveð að þröngva einni spurningu inn þar sem ég hef enn tíma.



Fjallað var um múslima á Íslandi í sérstökum þáttum Lóu Pindar Aldísardóttur á Stöð 2 fyrir tveimur árum. Annan þáttinn má sjá hér að neðan.


Jafnrétti kynjanna

Trúir þú á jafnrétti kynjanna?

„Já, auðvitað! Við trúum því en það er þó smá munur á skilgreiningunni.“

Nú, geturðu útskýrt það betur?

„Það er skrifað á mörgum stöðum í Kóraninum að þeir menn sem trúa og að þær konur sem trúa muni fá hin og þessi verðlaun. Ef allir fá sömu verðlaunin fyrir að trúa er jafnrétti á milli kynjanna. Í Kóraninum segir að ef karlmenn eigi rétt á því að skilja við konur sínar þá eigi konur einnig rétt á því að skilja við menn sína, það er jafnrétti. Kóraninn segir að ef menn eigi rétt á arfi eigi konur það líka. Samkvæmt íslam eiga konur að fá rétt til þess að mennta sig til jafns við karlmenn. Þar stendur líka að ef maður á þrjár dætur og hann menntar þær upp að því marki að þær noti nám sitt til þess að bæta samfélagið, þá sé hann búinn að skapa sér stað í paradís. Í íslam segir að paradís liggi við fætur móðurinnar, því þær hugsa um börnin sín. Þær eru stoðir og styttur þjóða með því sem þær kenna börnum sínum. Þegar hinn heilagi spámaður íslams var spurður hvaða manneskju ætti að sýna mestan kærleika og virðingu svaraði hann: „Móður þinni.“ Í annað og þriðja skiptið sem hann var spurður sömu spurningar svaraði hann eins. Í fjórða skiptið sem hann var spurður að þessu svaraði hann: „Föður þínum.“ Þannig að þrjú skref fyrir móður en eitt fyrir föður.“



Af hverju kona getur ekki orðið kalífi

Gæti þá kona orðið næsti kalífi, leiðtogi ahmadiyya-samfélagsins?

„Staða kalífa er trúarlegs eðlis. Í íslam þurfa konur að fá leyfi frá bænastundum á vissum dögum. Þær þurfa að fá leyfi frá því að fasta á vissum dögum. Það er ein ástæðan, því að kalífinn þarf alltaf að vera til staðar. Önnur ástæða er sú að íslam segir að það séu vissar skyldur sem hafa verið úthlutaðar konum og aðrar skyldur sem hafa verið úthlutaðar karlmönnum. Eitt sinn sat heilagur spámaður íslams ásamt félögum sínum og kona gekk til þeirra. Hún sagði: „Kæri spámaður, þessir menn sem sitja með yður, þeir geta barist, þeir geta háð jihad og margt annað sem við konur getum ekki. Erum við jafnokar ykkar ef við sjáum um heimilin, börnin og kennum þeim kærleika?“ Hún spurði að þessu vegna þess að innan íslams er skipting á milli verkefna hjá kynjunum. Hann svaraði: „Já, verðlaunin sem þið fáið fyrir að gera ykkar skyldur skulu vera þau sömu og karlmenn fá fyrir að heyja jihad og fyrir að verða píslavottar.“

Ég lít á klukkuna, ég er kominn vel yfir 13 mínútur. Kalífinn sýnir engin merki þess að ætla stoppa. Ég brosi til hans og kinka kolli reglulega til þess að gefa honum merki um að ég sé að hlusta.

„Það eru reglur og þess vegna eru konum og körlum gefnar takmarkanir og tilslakanir á verkefnum. Í fyrra gaf breski herinn út þá tilskipan að konur gætu nú verið hluti af fótgönguliði, fremstu víglínu hersins. Margir herforingjar sögðu þetta vera fáránlegt. Ef konur eru að berjast eru þær ekki eins sterkar og karlarnir. Auðvitað eru undantekningar þar og jafnvel þá myndi nærvera kvennanna hafa truflandi áhrif á karlmennina sem ættu frekar að vera að einbeita sér að bardaganum. Þeir væru að einbeita sér að því að konan yrði ekki fyrir skaða. Við trúum á skiptingu verkefna á milli kynjanna, þannig er það.“

Masroor Ahmad hefur verið kalífi í fjórtán ár.Vísir/EPA

Hvernig verður maður kalífi?

Masroor Ahmad varð kalífi 22. apríl 2003. Daginn eftir að fjórði kalífi samfélagsins, Tahir Ahmad, lést. Staðan er æviráðning og er kalífinn kosinn af ráði innan samfélagsins sem skartar hundruðum einstaklinga. Fyrst er byrjað á því að safna saman nöfnum þeirra sem þykja koma til greina og svo er haldin lýðræðisleg kosning. Hvaða karlmaður sem er innan samfélagsins getur komið til greina. Samkvæmt þeirri reglu gæti næsti kalífi alveg eins orðið einn af þeim níu Íslendingum sem hafa orðið hluti af samfélagi þeirra í gegnum trúboð þeirra hér. Miðað við hver niðurstaða síðustu þriggja kosninga hafa verið, verður það þó að teljast ólíklegt.

Það er áhugavert hvernig þið ahmadyyia-múslimar veljið ykkur leiðtoga. Hingað til hafa að mestu verið valdir einstaklingar sem tengjast „hinum lofaða messíasi“ fjölskylduböndum, eins og þú ert þar sem hann var langafi þinn. Er það mikilvægt, að halda embættinu innan fjölskyldunnar? 

„Nei, það er ekki mikilvægt. Fyrsti kalífinn var til dæmis ekki tengdur fjölskyldunni. En annar var það, svo þriðji, fjórði og nú fimmti. Það er ekki mikilvægt. Næsti kalífi gæti verið valinn úr hópi Afríkubúa, Evrópubúa eða Asíubúa. Þetta hefur þó gerst svona vegna tilviljunar. Við trúum því að þó svo að það sé mannfólk sem kýs leiðtogann þá sé það Allah sem sjái um valið. Hann sér inn í hjörtu þeirra sem eru í ráðinu sem velur og gefur þeim hugmynd um hvern eigi að velja. Mér datt til dæmis aldrei í hug að ég gæti nokkurn tímann orðið kalífi.“



Þannig að þú varst ekki alinn upp við þann möguleika að einn daginn yrðir þú leiðtogi samfélagsins?


„Nei, alls ekki. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu þegar nafn mitt var eitt af þeim sem stungið var upp á. Mig langaði til þess að berjast á móti því og afþakka.“

Er það?

„Já, en það er guð sem velur þetta. Þannig gerist þetta í ahmadyyia-samfélaginu. Ef það er eitthvað skakkt við þetta, af hverju hefur Allah þá sent svona marga spámenn af ætt Mirzá Ghulam Ahmad? Þeir hafa verið þó nokkrir. Við trúum því að þetta sé í höndunum á Allah. Fólk kýs en guð ræður hver er kosinn. Það voru þó nokkrir í ráðinu sem kusu nýjan kalífa sem þekktu mig ekki neitt. Þeir sögðu að þegar nafnið mitt kom upp þá hafi þeir fundið það í hjarta sínu að þeir ættu að kjósa mér í hag.“

Áttu son?

„Já, ég á einn son. En það þýðir ekki að hann verði næsti kalífi. Sonur þriðja kalífans var ekki valinn þrátt fyrir að vera mjög virtur innan samfélagsins og þekktur fyrir að gefa sig allan málstaðnum.“

Fórnir kalífans

Þú hefur algjörlega gefið líf þitt boðskapnum. Þú eyðir öllum vökustundum í að vinna verkefni sem tengjast embætti þínu.

„Ég tileinkaði líf mitt boðskapnum eftir að hafa klárað menntun mína. Þá var ég sendur til Gana í lítið afskekkt þorp. Þar var til dæmis ekkert hreint vatn að finna. Ég hélt að ég myndi eyða restinni af lífi mínu í þessu litla þorpi. Eftir smástund var ég þó fluttur til höfuðborgarinnar Accra og svo aftur til norður Gana. Eftir það var ég sendur til höfuðstöðva ahmadyyia-samfélagsins í Pakistan þar sem ég vann fyrir mér sem verkamaður. Eftir það var ég hækkaður í tign í kennsluþjónustu og svo sem emír yfir því svæði. Þetta gerðist þrátt fyrir að þetta væri ekki lagt fyrir mig. Þetta gerist þrátt fyrir að ég hafði aldrei hugsað um að verða kalífi. Ég taldi mig ekki einu sinni hafa réttu trúarfræðimenntunina til stöðunnar. Eins og sérhver ahmadyyia -múslimi hafði ég auðvitað einhverja hugmynd um hvað stæði í Kóraninum, meiningu orðanna, boðskap spámannsins og boðskap stofnanda ahmadyyia-samfélagsins. En ég var alls enginn fræðimaður á þessu sviði og hafði ekki fengið neina menntun á því. Þannig að þegar ég var valinn tók líf mitt í algjöra u-beygju. Ég var menntaður í hagnýtum búskap. Að sitja í stól í margar klukkustundir finnst mér mjög erfitt en ég varð að gera það.“

Ertu hamingjusamur?

„Að hvaða leyti?“ segir kalífinn og bregður augljóslega við spurninguna. „Hamingjusamur miðað við hvað?“

Finnst þér líf þitt veita þér ánægju? Ertu sáttur við þá stefnu sem þitt persónulega líf tók?

„Hvað fjölskyldu mína varðar þá helga ég langmestan tíma minn samfélaginu. Ég hef ekki mikinn tíma fyrir fjölskyldu mína,“ segir maðurinn Masroor Ahmad og brosir, en ekki með augunum. „Á hverjum degi bíða mín 300-400 bréf frá fólki og trúboðum alls staðar að úr heiminum. Þar þarf að snerta á mjög ólíkum efnisþáttum og annað. Svo er opinber póstur og erindi sem ég þarf að fara í gegnum sem er oft líka upp undir 100 erindi á dag. Ég er því alltaf upptekinn hér. Ég verð hamingjusamur ef ég næ að vinna verkefnin mín og ef ég hef glatt almáttugan Allah. Ef ég náði ekki að gera hann glaðan þann daginn, hvort sem ég er hamingjusamur eður ei; ef ég trúi á eftirlífið þá verð ég hræddur og óttasleginn við það að verða spurður af hverju ég sinnti ekki starfi mínu vel. Það er mælieining ótta frekar en hamingju. Þegar ég sé í hvaða átt heimurinn er að stefna, þá verð ég að trúa því að ég hafi gert mitt besta.”

Koma dagar þar sem þér finnst þú ekki hafa gert skyldu þína?

„Já, jafnvel þegar ég hef lokið við öll þau verkefni sem lágu á borðinu mínu. Þá óttast ég. Því ég veit ekki hvað Allah vill mér eða af hve miklu afli ég eigi að sinna vinnunni. Þetta eru kannski mínar takmarkanir og ég get ekki alltaf sagt að ég hafi sinnt þeirri skyldu sem mér er ætlað að sinna.“



Getur það einhver?

„Ef ég er að gera guðs vilja, þá veit hann það einn. Ég verð að biðja um að þetta fari allt vel. Þegar ég yfirgef þennan heim vona ég að Allah sé sáttur við mig.“

Ég horfi á klukkuna og sé að viðtalið hefur staðið yfir í rúmar 20 mínútur. 

Jæja, þá er tími okkar á þrotum. Ég þakka þér fyrir spjallið.

„Nújá,“ segir kalífinn hissa. „Tíminn búinn? Jæja…“

Og nú stendur kalífinn á fætur og tekur í höndina á mér. Handtak hans er vinalegt og laust. Hann horfir í augun á mér og blessar mig. Hann er skælbrosandi sem og allt fylgdarlið hans. 

Frans páfi.Vísir/Getty

Kalífinn, ég, þú og páfinn í Róm

Þegar ég kem út af skrifstofunni kemur einn fjölmiðlafulltrúi hans til mín og segist aldrei hafa heyrt hann áður tala um einkalíf sitt eða þær fórnir sem hann hefur fært til þess að geta sinnt skyldu sinni. Hann er augljóslega hrærður og segist aldrei hafa þorað að spyrja út í þessa hluti sjálfur. Hann þakkar mér kærlega fyrir.

Staðreyndin er sú að Masroor Ahmad hefur líklegast ekki verið kallaður nafni sínu síðan hann var kosinn kalífi árið 2003. Síðan þá hefur hann verið „hans heilagleiki“. Þann dag lögðu æðri máttarvöld það á herðar hans að leggja líf sitt á hilluna, kveðja hefðbundið fjölskyldulíf og sinna vilja guðs sem hvorki hann né aðrir geta nokkurn tímann vitað með fullri vissu hver er. Dag eftir dag rækir hann þær skyldur sem liggja beinast við á borðinu hans. Stundum gerir hann gott betur og heimsækir þjóðarleiðtoga, eins og forsætisráðherra Kanada sem hann sótti heim í fyrra. Á friðarþingum færir hann mismunandi trúarhópa, stjórnmálamenn og fræðimenn saman til þess að ræða hvernig sé hægt að koma á heimsfriði. Hann er gerir sem sagt ýmislegt en vegna þess að vilji guðs er honum hulinn verður hann að sætta sig við það eina sem hægt er – vonina um að hann sé að gera gott. Því eftir allt saman er kalífinn Masroor Ahmad eins og ég, þú og páfinn í Róm. Bara maður sem mokar sínum snjó í von um að komast í gegnum skaflinn heill á húfi.

 


Tengdar fréttir

Kalífinn leiddi bæn og guð ýtti á pásu

Íslenskir ahmadyyia-múslimar heimsóttu alþjóðlega ráðstefnu trúfélagsins á Englandi um þarsíðustu helgi. Eini maðurinn með óþægilega nærveru á staðnum var austurrískur nýnasisti.






×