Innlent

Slæm umgengni enn vandamál við Seljavallalaug

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Myndirnar frá Seljavallalaug sýna afar slæma umgengni um svæðið.
Myndirnar frá Seljavallalaug sýna afar slæma umgengni um svæðið. Janeks Belajevs
Myndir sem teknar voru við hina friðuðu Seljavallalaug, í Laugarárgili undir Austur-Eyjafjallasveit, af ferðalangi nú á dögunum, sýna að umgengni við laugina er enn ábótavant, þar sem dósir og annarskonar rusl liggur á víð og dreif í húsinu við laugina.

Laugin hefur notið æ meiri vinsælda sem áfangastaður ferðamanna og flykkjast hundruðir gesta að lauginni á degi hverjum.

Aðbúnaður og ástand laugarinnar hefur áður verið í umræðunni, en Jónas Freydal, ferðaþjónustumaður hefur til að mynda viðrað áhyggjur sínar af ástandi mála við laugina, en fregnir hafa borist af tíðum ástarleikjum ferðamanna í lauginni.

Sjá einnig: Stóðlífi í Seljavallalaug

Janeks Belajevs
Laugin er í umsjá Ungmennafélagsins Eyfellingur, en Ármann Fannar Magnússon, formaður félagsins, segir í samtali við Vísi að ástandið við laugina hafi ekkert breyst, á því rúma ári sem hefur liðið, frá umfjöllun Vísis um málið.

„Þetta er í raun og veru ekki opinn sundstaður, það er málið, það er engin þjónusta og ekkert eftirlit. En það er mjög leiðinlegt að fólk gangi svona um.“

Hann segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hann heyrir af slæmri umgengni við sundlaugina.

„Því miður, heyri ég þetta alltof oft. Þetta er að sjálfsögðu bara sjálfboðastarf að hreinsa þetta. Það er enn vetrartími svo maður er ekki alltaf þarna, en maður gerir meira yfir sumartímann.“

Ármann segir ekki ljóst hvað Ungmennafélagið mun til bragðs taka vegna þessa.

„Það verður kannski bara að fara að hafa einhverja vakt þarna. Þetta kannski endar með því að það verði einhver þarna til þess að passa upp á þetta. Þetta er bara eitthvað sem að þarf að skoða.“ 

JANEKS BELAJEVS

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×