Handbolti

Köstuðu hlandi í markvörðinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ungureanu þurfti líklega tvöfaldan skammt af Doppel Dusch í hárið eftir leik. Ótrúleg hegðun hjá áhorfendum.
Ungureanu þurfti líklega tvöfaldan skammt af Doppel Dusch í hárið eftir leik. Ótrúleg hegðun hjá áhorfendum. vísir/getty
Stuðningsmenn ungverska liðsins Ferencvaros beittu bókstaflega öllum ráðum til þess að hjálpa sínu liði í Meistaradeildinni í handbolta um páskana.

Þá var liðið að keppa síðari leikinn gegn rúmenska liðinu CSM Bucuresti og þurfti að vinna upp fimm marka forskot úr fyrri leiknum.

Er það leit ekki út fyrir að það tækist hjá ungverska liðinu gripu áhorfendur til sinna ráða. Þeir fylltu meðal annars bjórglös af hlandi og köstuðu þeim inn á völlinn. Voru þeir að reyna að hitta markvörðu rúmenska liðsins, Paula Ungureanu, og gekk það ágætlega.

„Þetta var viðbjóðslegt. Það getur ekki verið gott að vera með hland í hárinu. Þeir köstuðu líka smápeningum og kveikjurum í hana,“ sagði hinn sænski þjálfari Bucuresti, Per Johansson.

„Það vantaði líka ekki viðbjóðinn sem kom út úr fólkinu. Mínir leikmenn voru kallaðir hóruungar, sígaunar og ég veit ekki hvað. Þetta snérist ekki bara um liðin heldur hatrið á milli þjóðanna.“

Bucuresti vann útileikinn með einu marki þrátt fyrir hlandkastið og er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×