Veiði

Veiði hefst í þjóðgarðinum 20. apríl

Karl Lúðvíksson skrifar
Vænn urriði úr Þingvallavatni
Vænn urriði úr Þingvallavatni Mynd: Veiðikortið

Það eru margir veiðimenn sem bíða spenntir eftir fimmtudeginum en þá hefst veiði í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Það má reikna með því að það verði margir sem mæta á þessum fyrsta degi en svo kemur í ljós hvernig menn endast út daginn því vatnið á þessum tíma er ansi kalt og spáin á fimmtudaginn heldur köld og hvöss en það á sem betur fer að vera frostlaust að minnsta kosti samkvæmt spánni.  Það veiðist nú engu að síður oft í leiðinlegu veðri á þessum árstíma því ekki er verið að kasta á bleikju en sem komið er heldur eru veiðimenn að leita að urriðanum sem á þessum tíma þvælist upp að landgrunninu víða við vatnið.

Það koma alltaf upp stórir urriðar í landi þjóðgarðsins þó betri veiðisvæði fyrir hann séu annars staðar í vatninu en þar sem þjóðgarðurinn er innan Veiðikortsins eru margir sem nýta sér það og eru duglegir að mæta og freista þess að setja í einn af þessum stóru urriðum sem er í vatninu.  Aðeins má veiða á flugu til 31. maí og verða veiðiverðir vakandi fyrir því að ekki verði veitt á annað agn á þessum tíma en nokkuð hefur borið á því að verið sé að veiða með beitu og sá urriði sem fellur á agnið drepinn þrátt fyrir þau tilmæli um að virða þá verndum sem er í gangi.   Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira